Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 17:47:06 (2584)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. gerði það að umtalsefni að viðbrögð okkar í stjórnarandstöðunni nú væru önnur en við brögð Sjálfstfl. þegar hann var í stjórnarandstöðu 1990. Sá er munurinn, hæstv. forsrh., að 1990 var þjóðarsátt. Alþýðusambandið, BSRB, Stéttarsamband bænda og Vinnuveitendasambandið undirrituðu þjóðarsáttina og innsigluðu með sérstöku samkomulagi. Kennarasamband Íslands gerðist síðar formlegur aðili að þeirri þjóðarsátt. Nú er allt annað upp á teningnum. Nú flytja menn ræður á Alþýðusambandsþingi í dag og jafnvel Pétur Sigurðsson, varaþm. Alþfl., ræðst harkalega á ríkisstjórnina fyrir þessar efnahagsaðgerðir. Ásmundur Stefánsson, sem hefur reynt í margar vikur að hafa góða samvinnu við forsrh., sér ástæðu til að mótmæla honum sérstaklega og biðja hann í sjónvarpinu í gærkvöldi að loka ekki umfjöllun um málið. Hæstv. forsrh. verður auðvitað að gera sér grein fyrir því að honum og hans ríkisstjórn hefur mistekist það sem okkur tókst 1990, að ná formlegri og innsiglaðri og undirritaðri þjóðarsátt allra helstu hagsmunaaðilanna í landinu. Það var það sem Alþb. var reiðubúið að stuðla að. Ég sagði í ræðunni í gær: Við erum tilbúin til þess enn. Ef ríkisstjórnin er tilbúin til þess að endurskoða aðgerðir sínar frá helginni stendur ekki á okkur að taka upp á ný samstarf um það að reyna að ná þessari víðtæku þjóðarsátt. Það á líka við um Alþýðusambandið. Samkvæmt yfirlýsingu forseta Alþýðusambandsins við forsrh. í gær er hann tilbúinn til þess. Þetta verður hæstv. forsrh. að viðurkenna og átta sig á.