Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 17:50:01 (2586)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað eðlilegt að hæstv. forsrh. sé sár og reiður yfir því að honum hefur mistekist það sem Steingrími Hermannssyni tókst, að ná hér víðtækri þjóðarsátt. Ég skil vel sárindi hæstv. forsrh. út af því. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd og það skýrir kannski líka sárindin að árið 1993 verður metár í skattlagningu á einstaklinga eins og hv. þm. Svavar Gestsson hefur sýnt fram á. Það er ekki hægt að finna eitt einasta ár í sögu lýðveldisins þar sem einstaklingar verða að borga eins mikla skatta og á næsta ári og það Sjálfstfl. sem hefur haft forgöngu um að leggja þessar skattbyrðar á einstaklingana. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur rakið mjög rækilega skattahækkunina á einstaklingana í landinu.
    Vörn forsrh. er fólgin í því að það verði að taka með í dæmið að af því að fyrirtækin hafi borgað aðstöðugjaldið, þá hafi aðstöðugjaldið lent á einstaklingunum fyrir rest. Með þessari hundalógikk er auðvitað hægt að halda því fram að hægt sé að afnema alla skatta á fyrirtæki vegna þess að það séu auðvitað einstaklingarnir sem borgi þá og þess vegna hafi það engin áhrif þó allir skattar séu afnumdir af fyrirtækjunum og lagðir á einstaklingana. Það er auðvitað stórkostlega merkilegt að flokkur sem hefur viljað kenna sig við einstaklingsframtakið skuli nú ganga í það verk að láta ríkið leggja meiri skattbyrði á einstaklingana í landinu en nokkur önnur ríkisstjórn hefur leyft sér.