Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 17:55:33 (2591)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Tvær þingkonur Kvennalistans hafa nú þegar talað í þessari umræðu og hafa gagnrýnt aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Ég hef þar af leiðandi ekkert mjög miklu við að bæta en get þó ekki stillt mig um að koma hér upp og ræða þessa yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og þær aðgerðir sem hún boðar með þeirri yfirlýsingu.
    Hæstv. forsrh. leggur mikla áherslu á að það hafi verið haft eitthvert samráð og gengið sé til móts við þær tillögur sem aðilar vinnumarkaðarins voru búnir að vinna og þær hugmyndir sem komu fram í þeim viðræðum sem fóru fram meðal aðila vinnumarkaðarins. Það er ákaflega erfitt að sjá hvernig hægt er að halda því fram því það er augljóst mál öllum sem vilja sjá að ekkert samráð er haft hvorki við aðila vinnumarkaðarins né stjórnarandstöðuna. Hæstv. forsrh. heldur því fram núna að mikið samráð hafi verið haft við stjórnarandstöðuna og það lýsi því hversu óábyrg hún er að við skulum ekki gleypa í einum bita það sem ríkisstjórnin setur fram.
    Virðulegi forseti. Ég sakna hæstv. forsrh. Er hann ekki í húsinu? ( Forseti: Forseti telur alveg víst að hæstv. forsrh. heyri ræðu hv. þm. en mun senda honum skilaboð ef hann er einhvers staðar til hliðar.) Mér þykir nokkuð erfitt að tala um þessar ráðstafanir ef hæstv. forsrh. sér sér ekki fært að hlusta á það sem ég hef fram að færa. Ef hann hefur ekki áhuga á að hlusta á það sem við höfum að segja, þá þykir mér það mjög slæmt og vil helst ekki ræða mikið þessi mál án þess að einhverjir ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu viðstaddir. Það vekur athygli að ekki einn einasti þeirra er í salnum núna. (Gripið fram í.) Stjórnarliðarnir eru auðvitað fáir í salnum vegna þess að þeir skammast sín fyrir þær ráðstafanir sem hér eru á blaði og vilja helst ekki láta sjá sig. Þeir vita upp á sig skömmina og vilja helst ekki bera ábyrgð á þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur greinilega þröngvað fram í gegnum ríkisstjórnarflokkana.
    Það er einkennilegt að hæstv. forsrh. skuli halda því fram að um samráð eða samvinnu við stjórnarandstöðuna hafi verið að ræða. Eins og kom greinilega fram við umræðuna í gær fengu stjórnarandstöðuflokkarnir þessa yfirlýsingar og aðgerðir í hendur um leið og gengið var inn í salinn og umræðan var að hefjast. Síðan lítur hæstv. forsrh. á það sem óábyrga stjórnarandstöðu að við skulum vera að gagnrýna þessi vinnubrögð og það sem hér kemur fram. Það er auðvitað alveg út í bláinn.
    Það vissu allir að það þurfti að grípa til aðgerða til að bjarga sjávarútveginum sérstaklega og reyndar fleiri fyrirtækjum. Þess vegna höfðu farið fram mjög margir fundir af hálfu aðila vinnumarkaðarins, þ.e. VSÍ, VMSÍ og ASÍ. Stjórnarandstöðuflokkarnir voru m.a. boðaðir á þeirra fund þann 19. nóv. sl. Reyndar kom það fram í fréttum að þeir gerðu ríkisstjórninni einnig grein fyrir sínum áherslum. Við kvennalistakonur tókum þátt í þessum umræðum vegna þess að við töldum mjög mikilvægt að í þessu máli næðist víðtæk samstaða. Það var raunar það sem allir aðilar lögðu áherslu á. En hæstv. ríkisstjórn virtist ekkert samráð vilja hafa og vildi bara ráða málunum ein. Kannski eru hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin í heild einhvers staðar að reyna að ráða ráðum sínum núna og vonandi er ríkisstjórnin að hlusta á það sem við stjórnarandstæðingar höfum fram að færa til að reyna að draga úr þeim álögum á almenning í landinu sem felst í þessum tillögum og sérstaklega álögum á þá sem minna mega sín.
    Eftir langar og miklar fundasetur eða kannski aðallega nætursetur komst ríkisstjórnin að því að nú þyrfti að fella gengið. Síðan komu skýringarnar og þær voru: Pundið hafði fallið. En pundið féll fyrir nokkru síðan og eftir að pundið féll voru á lofti miklar yfirlýsingar, m.a. af hálfu hæstv. utanrrh., þar sem hann sagði að það blindvitlausasta sem hægt væri að gera væri að fella gengið til samræmis við það. Svo er gengið fellt í gær um 6% og þá er gripið til þess ráðs að tala um að pesetinn, eskúdóinn og líran hafi fallið og þess vegna sé nauðsynlegt fyrir íslensku ríkisstjórnina að fella gengið. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem ég hef heyrt það sem rök í málinu að pesetinn eða líran hafi fallið. Ég veit ekki hve oft líran hefur fallið á undanförnum árum en ég hef aldrei heyrt að það væri ástæða til að íslenska krónan væri felld af þeim sökum. Þetta er hreint ótrúlegt. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvort hæstv. . . .  ( Forseti: Hæstv. forsrh. er alveg að koma. Hann hlýtur að birtast á hverri mínútu.) Mér þykir mjög slæmt ef hæstv. forsrh. og reyndar ráðherrar í ríkisstjórninni telja ástæðu til að stökkva á dyr þegar ég vildi gjarnan fá að ræða við ríkisstjórnina. ( Forseti: Hæstv. forsrh. er í genginn í salinn.) Mér þykir mjög gott að fá að eiga nokkur orð við hæstv. forsrh. Ég vona að hann hafi heyrt eitthvað af því sem ég var búin að segja áðan. Ég lýsti því að ég teldi það ákaflega lítið samráð sem haft var við stjórnarandstöðuna og reyndar aðila vinnumarkaðarins sem skiptir auðvitað höfuðmáli. Var ég nú að koma að því hvað mér fannst einkennileg röksemdafærsla fyrir því að nú þurfti að fella gengið þar sem ljóst var að ráðherrar ríkisstjórnarinnar og sérstaklega hæstv. utanrrh. talaði um, m.a. á fundi LÍÚ á Akureyri sem hér hefur verið vitnað til, að það væri alveg út í hött að fella íslensku krónuna þegar pundið féll en síðan þegar pesetinn, eskúdóinn og líran féllu var allt í einu orðið nauðsynlegt að fella gengi íslensku krónunnar. Mig vantar eiginlega skýringu á því hvers vegna ekki hefur þurft að gera það áður þegar t.d. er vitað að líran hefur margoft fallið án þess að það hafi verið talin ástæða til að hreyfa gengi íslensku krónunnar í því sambandi.
    Auðvitað hefur ríkisstjórnin vonað í lengstu lög að gengi norsku krónunnar félli því það var notað sem rök til að byrja með en síðan lenti ríkisstjórnin í þeim hremmingum að norska krónan styrktist og styrktist og féll ekki og kannski sem betur fer. Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh. sem hann sagði í gær í sjónvarpinu að auðvitað er það gott að gengi norsku krónunnar skuli geta haldist. Það er betra fyrir okkar vörur ef hún helst há og okkar gengi fellur að einhverju leyti. Ég þarf kannski ekki að hafa fleiri orð um það en ég tel að þessi gengisfelling hafi verið ákaflega einkennileg, ekki síst með tilliti til þess með hvaða rökum hún var ákveðin.
    Hv. 6. þm. Vestf., Ágústa Gísladóttir, rakti ágætlega í hverju sjávarútvegspakkinn hefði verið fólginn. Eftir að tvíhöfðanefndin er búin að starfa svo og svo lengi með ærnum tilkostnaði kemur raunverulega ekkert út úr því máli. Hún lýsti því ágætlega hvað hér á ferðinni og það er í raun ekkert nýtt. Þetta eru gamlar tillögur nema auðvitað það að 1996--1997 verður tekið upp þóknunargjald á útflutt þorskígidi eins og það er orðað eða tekinn upp auðlindaskattur. Það er auðvitað á næsta kjörtímabili og hefur ekkert að gera með þær ráðstafanir sem verið er að tala um hér og nú.
    Höfuðgallinn við tillögur ríkisstjórnarinnar er þó sá að þeir sem betur mega sín taka ekki á sig neinar verulegar auknar byrðar heldur er það láglaunafólkið og meðaltekjufólkið sem á að bera meiri hluta byrðanna. Það kom greinilega fram í því sem hæstv. forsrh. sagði áðan þegar hann sagði að 3% aukning væri hjá þeim sem minna mega sín og 6% af þeim sem meira mega sín. Hæstv. forsrh. hlýtur að gera sér grein fyrir því að fyrir þá sem hafa lágar tekjur, eru með lágmarkstekjur undir skattleysismörkum, eru 3% auknar byrðar verulega mikil þynging og getur verið mörgum algerlega um megn. Fyrir þá sem hafa verulega háar tekjur er örugglega miklu minna mál að taka á sig 6% aukningu en fyrir þá sem minna mega sín að taka á sig 3% aukningu.
    Það er því mjög sérkennilegt að telja að það standist sem er á fyrstu síðu í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að breytingar á skattkerfinu muni leiða til þess að þeir taki á sig meira sem betur

standa. Ég held að það sé algerlega út í bláinn að ætlast til þess að það sé neitt sem verulega skipti máli. Barnafólkið á að taka á sig auknar byrðar. Það á að lækka barnabætur. Við höfum ekki fengið að vita neitt um hvernig það á að vera og verður væntanlega útfært síðar og fáum við að ræða það þegar þar að kemur. Tekjuskattur er hækkaður um 1,5% án þess að persónuafsláttur sé hækkaður sem hefði verið nauðsynlegt að gera og miklu eðlilegra að reyna að koma til móts við þá lægst launuðu með því að auka persónuafsláttinn ef auka á tekjuskattinn. Síðan er talað um hátekjuskatt upp á 5% sem hæstv. forsrh. hefur sagt nokkuð oft og síðast í gær að væri táknrænn, minnir mig að væri notað yfir þennan svokallaða hátekjuskatt. Áður er búið að tala um að þetta væri einhvers konar sálfræðileg aðgerð þannig að fólki liði betur að þeir sem væru með hærri tekjur bæru aðeins meira. Skatturinn á einungis að gefa, eftir því sem mér skilst, 300 millj. í ríkissjóð ef ég hef fengið réttar tölur.
    Hæstv. forsrh. talaði um að aðstöðugjaldið væri mjög til hagsbóta fyrir almenning. Það getur vel verið að lækkun aðstöðugjalda muni lækka verðlag að einhverju leyti. Talað er um að niðurfelling aðstöðugjaldsins geti leitt til 1,5% lægra verðs, en þess ber að geta að um leið og þetta er gert er gengið fellt og lagðir eru skattar á fólk. Þessi 1,5% lækkun vegna niðurfellingar aðstöðugjaldsins mun örugglega ekki vega upp á móti gengisfellingunni sem mun koma út í verðlagið.
    Auk þess vil ég minna á að það er alls ekki víst að þetta komi fram í lækkuðu vöruverði. Ég vil minna á að ekki alls fyrir löngu kom fram í fréttum að verð á nautakjöti frá framleiðenda hefði lækkað en það kom ekki fram í vöruverðinu. Það er því ekki alltaf víst að fram komi sú lækkun sem á að koma fram í vöruverði, t.d. þegar aðstöðugjald er fellt niður, aðföng lækka eða eitthvað annað sem ætti að lækka vöruverð. Það er því miður ekki alltaf sem það kemur neytendum til góða.
    Ríkisstjórnin vildi ekki leggja skatt á vexti með ákveðnu frítekjumarki eins og hér hefur verið margtalað um. Við kvennalistakonur hefðum talið eðlilegt að leggja skatt á vexti þegar vaxtatekjur eru verulega miklar en við leggjum áherslu á að skattleggja ekki almennan sparnað. Það kom fram m.a. hjá hæstv. sjútvrh. að það væri hinn almenni launamaður sem ætti mestallan sparnað í bönkunum. Það getur vel verið að láglaunafólk og almennt launafólk eigi stórar fúlgur í bönkunum. Mér er ekki kunnugt um það. Ég þekki ákaflega fáa sem geta lagt mikið til hliðar af þeim sem eru með lægstu tekjurnar.
    Gerum ráð fyrir að fólk geti átt 500 þús. til 1 millj. á bankabók og það væri talið eðlilegt. Ef við gerum þá ráð fyrir að fólk eigi 2 millj. á bankabók hvað mundi það þýða háan skatt? Ef við reiknum með því að fólk fái 7% raunávöxtun af 2 millj kr. sparnaði væru 70 þús. kr. vaxtatekjur skattlagðar. Ef við gerum ráð fyrir 10% skatti eru það 7 þús. kr. á ári. Ef við reiknum með 15% verða það 10.500 á ári. (Gripið fram í.) Ég talaði um það áðan að reiknað væri með að fólk gæti átt 1 millj. þannig að frítekjumarkið væri 70 þús. kr. Ef sparnaðurinn væri 2 millj. kr. væru bara skattlagðar 70 þús. kr. af því og skatturinn væri 10%. Þannig reiknaði ég það út. Ég hef nefnilega tekið eftir því að það er fullt af fólki sem heldur að þegar verið er að tala um skatt á vaxtatekjur sé verið að skattleggja heildarupphæð sparnaðarins. Það er auðvitað misskilningur. Ég hef tekið eftir að það eru margir sem eiga kannski 500 þús. kr. í banka eða eru búnir að nurla saman einhverjum ákveðnum upphæðum sem halda að með því að leggja skatta á vexti sé verið að skattleggja og taka kannski 10% af þessum sparnaði. ( Gripið fram í: Það var tillaga Alþýðusambandsins.) Ég er að tala um þá tillögu sem við kvennalistakonur viljum gjarnan standa að. Mér er ekki alveg kunnugt um það hvort tillögur Alþýðusambandsins gengu út á að hafa ekkert frítekjumark. Ég er að lýsa því að við kvennalistakonur teljum eðlilegt að hafa frítekjumark. Mér þykir einkennilegt ef ríkisstjórnin hefur gefist upp á að reyna að ná til þeirra sem eiga verulegar upphæðir í verðbréfum eða á banka og hafa verulegar tekjur eingöngu vegna þess að Alþýðusambandið lagði einhvern tíma til, að því er hæstv. forsrh. segir, að hafa ekkert frítekjumark. Ég trúi því ekki að Alþýðusambandið hafi ekki viljað hafa frítekjumark. En ég get ekki sagt neitt um það af því að ég talaði ekki um það við Alþýðusambandið. Ég trúi ekki öðru en það hafi verið hægt að komast að samkomulagi um það. Ég efast um að almennt launafólk og þeir sem eru með minni tekjur eigi almennt stórar fúlgur í bönkum sem nema milljónum króna. Þess vegna er fyrst og fremst verið að tala um að skattlegja þá sem eiga verulegar upphæðir og hafi tekjur af því.
    Ég tel miklu eðlilegra að gera það en leggja t.d. á bókaskatt eins og verið er að tala um og skatt á húshitun sem ég skil ekki hvernig í ósköpunum ríkisstjórninni dettur í hug að koma með eftir allt sem hér hefur verið sagt á undanförnum árum um húshitun og hversu erfitt það er fyrir fólk úti á landsbyggðinni að bera þær byrðar sem í henni felst. Svo á að leggja skatta á útvarp og sjónvarp þannig að allt þetta mun koma mjög við fjölskyldur í landinu sem þurfa að greiða þennan skatt og af verulega lágum tekjum. Það skiptir auðvitað máli að þeir sem eru með lægstu tekjurnar eiga mjög erfitt með að borga þessa auknu skatta. Þó að þeir séu kannski ekki háir hver og einn eru þeir það þegar saman kemur. Það munar um hvern einasta þúsundkall þegar fólk hefur ekki laun nema rétt í kringum skattleysismörkin.
    Það sem kom mér einna mest á óvart af þessum tillögum ríkisstjórnarinnar um afnám undanþágu frá virðisaukaskatti var ferðaþjónustan. Þetta með bókaskattinn hefur oft heyrst hjá hæstv. ríkisstjórn. Við erum búin að heyra það þó að þeir hafi ekki komið með tillögur um það fyrr en nú. Þessi svokallaði vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi sem ferðaþjónustan er hefur einmitt verið eitt af því sem hefur skapað konum atvinnu og þær tillögur sem hingað til hafa sést á borði ríkisstjórnarinnar varðandi atvinnusköpun er fyrst og fremst fyrir karla og ekki konur. Þetta er einmitt einn þáttur sem hefði verið eðlilegt að efla til

þess m.a. að fá vinnu fyrir konur og sérstaklega úti á landi. Það vekur einnig athygli að í tillögum ríkisstjórnarinnar er talað um að efla atvinnulíf á Suðurnesjum og er það mjög gott. Það á að verja ákveðinni fjárhæð til þess. Eitt af því sem hefur verið talað um þar er einmitt ferðaþjónusta til að auka vinnu fyrir konur sem eru miklu fleiri í hópi atvinnulausra en karlar.
    Hvernig í ósköpunum stendur á því að ríkisstjórnin leggur ekki til jafnframt þessu að lækka matarskattinn? Af hverju er ekki reynt að lækka álögur á heimilin með því að lækka matarskattinn eða afnema hann alveg? Það mundi ekki aðeins lækka kostnað heimilanna verulega og vera þar af leiðandi sérstaklega hagstætt fyrir þá lægst launuðu sem verja miklu hærri hluta af launum sínum í mat en þeir sem meira mega sín, heldur kæmi lækkun á matarskatti eða afnám sér sérstaklega vel fyrir ferðaþjónustuna. Það væri því eðlilegra í staðinn fyrir að leggja á ferðaþjónustuna auknar álögur að reyna að sjá til þess að hún geti spjarað sig í aukinni samkeppni.
    Ég veit ekki hvort ég á að ræða um húsbréfin og vaxtabæturnar sem eru auðvitað heill kapítuli út af fyrir sig. Það er ekki hægt að sjá á þeim tillögum sem hér eru hvað eigi að gera eiginlega varðandi húsbréfin. Það er nokkuð ljóst að lækka á vaxtabætur eða eins og segir í greinargerð ríkisstjórnarinnar: Að endurskoða vaxtabætur til að koma í veg fyrir áframhaldandi aukningu. Þá er búið að svíkja það sem talað hefur verið um að þeir sem þurfa að borga aukna vexti fái vaxtabætur í staðinn. Ég átta mig ekki alveg á hver munurinn er á því þegar verið er að tala um að minnkuð útgáfa húsbréfa muni lækka vexti þegar um leið á að auka útgáfu skuldabréfa um 4 milljarða, eins og fram kom í gær og hefur reyndar komið fram síðar, í þróunarsjóð sjávarútvegsins. Það hlýtur því einnig að auka þensluna og hækka vexti með sömu rökum.
    Ég ætla ekki að minnast á fleiri þætti þar sem tvær þingkonur kvennalistans hafa þegar gert ágætlega grein fyrir flestum þáttum. Það sem mér þykir ákaflega hæpið í forsendunum sem gefnar eru fyrir þessum aðgerðum er að laun hækki ekki á tímabilinu. Mér ákaflega hæpið að hægt sé að gera ráð fyrir því að þeir sem lægst hafa launin fái engar kjarabætur þegar gert er ráð fyrir að verðlag muni hækka um 4,5% auk verulegrar aukningar á sköttum fólks og að kaupmáttarrýrnunin verði þar af leiðandi veruleg. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig þetta kemur út fyrir einstaka hópa, enda hefur það sjálfsagt ekki verið reiknað. En það er alveg ljóst að þetta mun hafa veruleg áhrif á kjör þeirra sem lægstu launin hafa og það verður mun erfiðara fyrir fólk að ná endum saman ef það verður ekki algerlega ómögulegt eftir þessar ráðstafanir.
    Ég tel þess vegna ljóst að ríkisstjórnin verður að endurskoða þessar tillögur sínar í samráði við aðila bæði innan þings og utan og reyna að ná fram því markmiði sem kemur fram á fyrstu síðu yfirlýsingarinnar þar sem segir að breytingum á skattkerfi og ráðstöfunartekjum einstaklinga er hagað þannig að þeir taki meira á sig sem betur standa. Það er auðvitað það sem fólk vill að sé gert en þessar tillögur ríkisstjórnarinnar eru alls ekki til þess fallnar að hægt verði að uppfylla það sem þarna stendur.