Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 18:22:18 (2593)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er orðið nokkuð liðið á þessa umræðu og ég mun ekki endurtaka það sem menn hafa áður sagt. Ég er sammála í öllum atriðum þeim hv. þm. sem hafa talað fyrir hönd míns flokks, en mig langar að spyrja hæstv. forsrh. nokkurra spurninga sem ég held að ekki hafi komið fram enn þá og þó þykist ég hafa fylgst nokkuð með umræðunni.
    Fyrsta spurningin sem mér liggur á hjarta er þessi: Hvað breytingar urðu á efnahagstillögum ríkisstjórnarinnar eftir að gengið var fellt? Þessar tillögur höfðu auðvitað verið í undirbúningi og umræðu allnokkurn tíma og ég hef áhuga á að vita hverju var breytt þegar ljóst var að gengisfelling yrði.
    Önnur spurning sem mér liggur einnig á hjarta er um eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar að lækka vexti. Vafalaust er ein ástæðan fyrir því að menn heyktust á að skattleggja fjármagnstekjur að menn óttuðust skattahækkun. Ekki sýnist mér að það geti verið nægar forsendur í þessum efnahagstillögum sem kynntar hafa verið til þess að þær hugmyndir nái fram að ganga. Það nægir ekki að lækka bindiskyldu bankanna á meðan ekki virðist fyrirhugað að draga úr t.d. útgáfu húsbréfa. Ég harma það mjög að hæstv. félmrh. skuli ekki hafa verið viðstaddur þessa umræðu vegna þess að hún er auðvitað þarna veigamikill aðili. Við skulum horfast í augu við að stærsti aðilinn á lánamarkaðnum er ríkið sjálft eins og við öll vitum. Þess vegna langar mig að vita: Eru einhverjar aðrar ráðstafanir á prjónunum sem við höfum ekki heyrt enn þá og miða að því að draga úr ríkisumsvifum og innlendum lántökum? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að heyra ofurlítið um það hvaða hugmyndir menn hafa um þessa hluti.
    Ég ætla að reyna að halda mig við spurningar til að byrja með. Þriðja spurning mín er þessi:

Hvernig hyggst ríkisstjórnin mæta gengisfellingu fyrir hönd Lánasjóðs ísl. námsmanna? Mér finnst það satt að segja hrollvekja ef stjórn lánasjóðsins á t.d. ákveða það hvort t.d. stúdentar í Bandaríkjunum fá einhverja hækkun eða enga. Það er auðvitað alveg ljóst að þar verður mikil kjaraskerðing. Menn gætu svo sem látið sér detta í hug að fara að lækka framlög til stúdenta í Svíþjóð á sama hátt. En ég spyr: Hvernig verður búið að þeim námsmönnum sem óneitanlega verða fyrir umtalsverðri kjaraskerðingu vegna gengisfellingarinnar ef ekki kemur til viðbótarfjármagn?
    Það væri auðvitað efni til hugleiðinga og skal ég ekki eyða miklu máli í það, en það væri fróðlegt að eiga einhvern tíma umræðu um hvernig mál eins og þessi gerast. Fjármagnseigendur hafa það beinlínis á valdi sínu að sjá til þess að gengið verði lækkað eins og gerðist í Svíþjóð. Menn spekúlera á kaupþingum heimsins og um leið og komið er rautt ljós á einhvern gjaldmiðil fer skriðan af stað og sami gjaldmiðill fer að verða ótryggur.
    Annað held ég að væri ástæða til að hugsa aðeins um en það er hvernig skráning krónunnar í raun og veru er. Eru þau hlutföll sem hún er nú skráð í varðandi þessa gjaldmiðla, ECU, dollarar, jen eða hvað þetta nú er, er þetta nógu tryggt? Ég vil biðja hæstv. forsrh. að huga aðeins að því.
    Ég skal ekki, hæstv. forseti, fara mikið út í einstök atriði. Þó er óhjákvæmilegt að ræða örfá atriði sem mér finnst hafa verið fyrirferðarlítil í þessari umræðu. Það er sú ískalda staðreynd að enn á að herða að barnafjölskyldum. Í hólf okkar barst í morgun heilbrigðisskýrsla frá landlæknisembættinu þar sem fram kemur að slys á börnum og unglingum á Íslandi eru miklu fleiri en gerist t.d. á Norðurlöndunum. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Flest slysin verða í þéttbýli og hlutfall íbúa er búa í þéttbýli er svipað á Íslandi og í nágrannalöndunum. Bifreiðafjöldi er mestur á Íslandi og vegir eru verri en í nágrannalöndunum og gæti það haft einhver áhrif á slysatíðnina: Erfitt er að benda á eina skýringu, en eftirfarandi atriði hafa trúlega áhrif á slysatíðnina: Á Íslandi eru fleiri lyklabörn vegna óvenjulangs vinnutíma foreldra, stutts skóladags og færri barna í heilsdagsvistun á dagheimilum en í nágrannalöndunum. Enn fremur virðast færri skólar vera einsetnir hér á landi.``
    Það sem hér er einfaldlega verið að segja er að barna er ekki gætt á Íslandi eins og vera ber. Það væri kannski umhugsunarefni fyrir hæstv. ríkisstjórn að gera sér grein fyrir að giftir foreldrar með tvö börn t.d. undir 6 ára aldri greiða 60 þús. kr. á mánuði, ef þau geta, til dagmæðra. Auðvitað er það svo að fjöldi foreldra hefur alls ekki ráð á þessu. Það er óhugnaður til þess að vita að nú eru ekki aðeins lyklabörn orðin fastur liður í þjóðfélaginu heldur heyrði ég það í barnaskóla nýlega að nú eru einnig komin pokabörn. Það eru þau börn sem foreldrar treysta ekki til að vera einum heima og hengdur er poki með fæðu yfir daginn á hurðarhúninn á útidyrahurð hússins þar sem börnin geta fengið sér mat en verða síðan bara að vera úti að leika sér. Það þarf ekki að segja neinum að í skammdegi á Íslandi er þetta ekki nokkurt vit. Auðvitað hljótum við að hafa samúð með því fólki sem ræður ekki við þessar gífurlegu upphæðir sem eyða þarf í barnagæslu. Svo lætur hæstv. ríkisstjórn sér detta í hug að lækka barnabætur. Þetta er svo vanhugsað að ég vil biðja menn að endurskoða aðeins hvort við eigum ekki heldur að reyna að hlúa að því sem varðar börn og unglinga hér á landi frekar en rýra kjör þeirra enn. Satt að segja er það harður dómur yfir stjórnvöldum sem birtist í skýrslunum frá landlækni. Þetta er hlutur sem við erum búin að tala um í mörg ár en venjulega við litlar undirtektir áheyrenda. Það er auðvitað svo að með því ástandi sem ríkir í húsnæðismálum mega ungbarnaforeldrar hafa mjög háar tekjur til þess að ráða við hvort tveggja, greiðslur af íbúðum sínum og þá rándýru barnagæslu sem viðgengst hér á landi.
    Annað atriði vil ég leggja sérstaka áherslu á, enda væri mér ekki annað sæmandi en það er fyrirhugaður skattur á íslenskar bókmenntir. Það er gott að geta þeirra á hátíðlegum stundum en auðvitað er alveg ljóst að það er mjög alvarlegt mál að taka upp virðisaukaskatt á bækur aftur á miðju næsta ári. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa bréf sem okkur barst í dag svo að það komist í þingtíðindi, en það er bréf frá aðalfundi Bandalags ísl. listamanna og hljóðar svo:
    ,,Aðalfundur Bandalags ísl. listamanna haldinn 21. nóvember 1992 beinir þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að falla þegar í stað frá öllum áformum um að skattleggja útgáfu- og menningarstarfsemi. Tímabundnir erfiðleikar í efnahagslífi þjóðarinnar verða ekki leystir með nýjum álögum á menningarlíf landsmanna sem að stærstum hluta er borið uppi af fólki sem starfar án tillits til þeirra reglna um fjárhagslega umbun sem gilda á flestum öðrum sviðum þjóðlífsins. Það væru hörmuleg mistök að vega að rótum íslenskrar menningar á sama tíma og stefnt er að þátttöku í nánu samstarfi Evrópuþjóða innan Evrópska efnahagssvæðisins þegar gera má ráð fyrir að íslensk tunga og menning eigi eftir að verða fyrir stórfelldara áreiti erlendra menningarstrauma en dæmi eru um í sögu þjóðarinnar.
    Það er frumskylda íslenskra stjórnmálamanna að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði íslenskrar þjóðar og á herðum allra landsmanna hvílir sú skylda að skila menningararfleifð þjóðarinnar í hendur næstu kynslóða.
    Aðalfundur Bandalags ísl. listamanna skorar því á ríkisstjórn og Alþingi Íslendinga að láta ekki undir höfuð leggjast að gera þær ráðstafanir sem frekast er unnt til að efla styrk íslenskrar menningar í stað þess að veikja stöðu hennar.``
    Undir þetta rita Hjálmar H. Ragnarsson og Þráinn Bertelsson.
    Ég held að bréfið segi allt sem segja þarf. Ég hélt að ef um eitthvað væri þjóðarsátt í þessu landi

þá væri það að hlúa að vexti og viðgangi íslenskrar tungu og menningar og ekki síst íslenskra bókmennta sem eru auðvitað forsenda fyrir því að íslensk tunga haldi velli og ég vil skora á hæstv. ríkisstjórn að endurskoða þetta atriði. Það er ekki sæmandi að setja þennan skatt á.
    Vísa má til ábendingar sem kom frá ritstjóra Frjálsrar verslunar þar sem hann bendir á grein um hvernig fara kunni fyrir tímaritaútgáfu í landinu sem á auðvitað í samkeppni við erlend tímarit af öllu tagi og sakar ekki að benda stjórnvöldum á að lesa það einnig.
    Eitt atriði hlýt ég að minna á og það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja 2 milljarða í sérstök verkefni og man ég ekki betur en eitt af þeim sé endurbygging Þjóðminjasafns. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta er blekking ein vegna þess að mér er kunnugt um að það hefur varla verið haldinn fundur í byggingarnefnd Þjóðminjasafns og vægast sagt ekki að heyra á settum þjóðminjaverði að hann setji þessar endurbætur meðal forgangsverkefna. Ég vil því minna aðeins á þetta mál og þætti gott að fá einhverjar upplýsingar um hvort þarna er einhver bremsa sem mér er ekki kunnugt um eða hvort þetta er misskilningur einn.
    Eitt atriði sem reyndar hefur líka verið talað um er lækkun vaxtabóta. Það er auðvitað jafnfráleit og alvarleg kjaraskerðing og allt annað í þessum tillögum. Ég hélt að að væri einfalt reikningsdæmi að leiðin til að draga úr vaxtabótum, sem fara sívaxandi eins og lög gera ráð fyrir, væri að lækka vexti en það er ekki leiðin til að draga úr vaxtabótum að halda vöxtum eins og þeir eru. Það er því auðvitað talsverð kjararýrnun ef þau áform ná fram að ganga.
    Að lokum. Það hlýtur að koma að því að menn brosi þegar til stendur að stofna einn sjóðinn enn. Hverjir hafa talað mest og lengst um sjóðasukkið? Ég vil taka undir það sem kom fram í dag að ég sé ekki hvaða þörf er á að búa til nýjan sjóð. Kannski mætti frekar reyna að sameina þá sem fyrir eru og fækka svolítið stjórnum og starfsmönnum þessara ágætu sjóða. Margir hverjir hafa auðvitað unnið mjög gott verk og skal það ekki lastað, en að einn sjóðurinn yrði til, því hefðum við ekki átt von á. Það kom náttúrlega líka fram í morgun á fundi fjárln. að það er svo sem ekkert vitað hvernig á að fara með þetta fé og ég vil benda á að við munum halda þeim upptekna hætti sem er umdeildur en menn lögðu mikla áherslu á að þessir 4 milljarðar koma auðvitað fram sem viðbót við fjárlagahallann. Það gefur auga leið. Ekkert þýðir að koma með nein undanbrögð þar. Fyrir því var barist af hálfu Sjálfstfl. og við féllumst á það og bókhaldinu verður ekkert breytt til þess að bjarga því að þetta bætist ekki við fjárlagahallann. Það gerir það að sjálfsögðu. Menn fara ekki að skipta um bókhaldsaðferðir árlega úr þessu svo að allt er nú þetta með óttalegum endemum.
    Hæstv. utanrrh. svaraði því mjög einkennilega þegar ég spurði hann í umræðu í gær hvort hann gæti tryggt að þessar sparnaðaraðgerðir lækki ríkisútgjöld um 1.240 millj. eins og haldið hefur verið fram. Þetta er auðvitað fráleitt. Það getur auðvitað ekki gert það ef 4 milljarðarnir koma til auk þess sem það hlýtur að vera alveg óhjákvæmilegt að veita meira fé til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það verður ekki komist fram hjá því nema við ætlum beinlínis að fara að hrekja fólk frá námi.
    Hæstv. forseti. Ég hef minnst á nokkur atriði og ég skal gera mitt til þess að aðrir komist að. En ég legg áherslu á að spurningu minni um þær breytingar sem efnahagstillögurnar tóku eftir að gengisfellingin var ljós verði svarað. Og annað svo og allra síðast: Nú er alveg ljóst að norska krónan stendur meira en veikt og ég hygg að það sé búist við gengisfellingu þar í landi á hverri stundu ef hún er ekki þegar orðin. Nú spyr ég: Verði hún minni en 6% telur þá forsrh. að það þurfi að fella gengið frekar? Hvað gerum við ef hún verður meiri en 6%? Verður þá hjá því komist að fella gengið enn frekar?