Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 21:57:34 (2612)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef mjög sterkt á tilfinningunni að það hafi orðið hv. stjórnarandstæðingum gríðarlegt áfall að stjórnarflokkarnir skuli hafa leyst úr þessu máli sem margir töldu vera tifandi tímasprengju í þeirra samstarfi um leið og þeir leystu úr margvíslegum öðrum málum. Mér hefur virst það á því hvernig þeir reyna að róta þessu máli upp og reyna að skilgreina blæbrigðatúlkunarmun í orðum ráðherra sem stórkostlega deilu og vandamál. Ef þeir halda að málið sé svo erfitt, þá skulu þeir hlakka til þegar frv. um þennan sjóð kemur inn á þingið. Ég vil fullvissa þá um að ef sú tilhlökkun er á þessu byggð, þá verða þeir fyrir miklum vonbrigðum.