Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 21:58:23 (2613)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni áðan að við hefðum farið með málefni ferðaþjónustunnar á villandi hátt í ræðum okkar fyrr í dag. Ég vil ítreka það að ég rakti samviskusamlega áhrif aðgerðanna á ferðaþjónustuna og vil endurtaka það. Virðisaukaskattur á hana er 600 millj. kr. Á móti kemur niðurfelling aðstöðugjalds og tryggingagjalds upp á 480 millj. kr. Mismunurinn er 120 millj. kr. Upp í það er leiðrétting á gengi og að mati sérfræðinga sem komu á fund fjárln. í morgun töldu þeir að greinin mundi standa svona nokkurn veginn eins og áður en þó tæplega.
    Ég ítrekaði það líka í dag að þessi grein er alveg komin á fremstu nöf og fram yfir það í verðlagningu þannig að hún hefði þurft að fá leiðréttingu eins og aðrar greinar í þessum ráðstöfunum.