Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 22:00:23 (2615)


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Það er svo að þessi ríkisstjórn hefur valdið verulegum vonbrigðum. Fyrir þessar aðgerðir var hún komin með gult spjald í leiknum frá þjóð sinni. Nú er hún búin að fá rautt spjald. Almenningur á Íslandi skynjar að hann situr með ríkisstjórn sem ekki ræður við þann vanda sem við er að glíma. Almenningur skynjar enn fremur að hún er líka haldin þeirri þráhyggju á ýmsum sviðum að gæta í engu þess jafnræðis meðal þegnanna sem mikilvægast er.
    Hæstv. forsrh., sem nú gengur úr salnum, hefur mjög gert það að umtalsefni hér í dag að stjórnarandstaðan væri óábyrg. Það hefði verið öðruvísi 1990 þegar þjóðarsáttin náðist. Nú skulum við hugsa þetta rökrétt. Í fyrsta lagi varð stjórnarandstaðan sem þá sat að gera sér grein fyrir því að ríkisstjórnin 1990 hafði náð algerri þjóðarsátt. Aðilar vinnumarkaðarins, verkalýðurinn og atvinnulífið, og bændasamtökin höfðu með bleki sínu skrifað undir sáttmála um nýja framtíð á Íslandi. Verðbólgulaust land, land þar sem skyldi ganga til þess að skila nýjum þjóðarvexti til þeirra sem minna máttu sín. Nú blasir það hins vegar við að við sitjum með forsrh. sem hefur náð samstöðu þó hún sé ekki ljós með ríkisstjórn sinni um aðgerðir sem enginn skilur. Forsrh. leyfir sér meira að segja ef einhver gagnrýnir hann að kalla þá menn óþjóðholla.
    Ég sá síðast Kristján Ragnarsson lýsa því yfir í sjónvarpinu áðan að þetta stafaði af því reynsluleysi forsrh. að hafa lengst af ævi sinnar setið í lokuðu húsi borgarstjórnarinnar. Hann þekkti ekki lýðræðið. Hann þekkti það ekki og þyldi það ekki að aðrir menn hefðu einhverjar aðrar skoðanir en hann sjálfur.
    Við gerum okkur grein fyrir því að við þessar aðstæður þegar þessi pakki er gefinn styttist í að kjarasamningar verði lausir. Þeir munu verða lausir 1. mars í vetur og það er ekki sáttahljóð sem berst að norðan við þeim aðgerðum sem hér hafa verið kynntar og margir þættir aðgerðanna hafa réttilega verið gagnrýndir.
    Auðvitað veldur sá miklu sem upphafinu veldur. Ríkisstjórnin ber alla ábyrgð á því að hafa raskað þjóðarsáttinni sem var gerð 1990 með stefnu sinni og aðgerðum á 18 mánaða tímabili. Hún ber alla ábyrgð á því. Hún ber líka ábyrgð á því hversu lengi hún hefur setið aðgerðalaus yfir stórkostlegum vanda sem blasir við íslensku atvinnulífi. Hins munu menn minnast um þau jól sem nú eru fram undan að Íslendingar hafa fengið ótímabæra jólagjöf. Þessi ríkisstjórn er í pakka sínum að velta hvorki meira né minna en 12 milljörðum yfir á þegnana í landinu.
    Ég ætla ekki að halda því fram hér að allar þær aðgerðir sem í þessum pakka eru séu alvondar eða vitlausar. En pakkinn minnir eigi að síður á það eins og menn hafi látið í hugmyndabanka hitt og þetta en dregið síðan blindandi upp það sem yrði notað því að þegar þessar aðgerðir fara að virka munu þær fara að rekast hver á aðra með ýmsum afleiðingum í þjóðfélaginu. Það er enginn vafi. Þess vegna er það svo þegar þjóðin hefði þurft á sterkri forustu að halda, nýjum þrótti, nýrri bjartsýni og nýju umhverfi þá er skip ríkisstjórnarinnar stefnulaust og vaxandi brimsjór í efnahagslífi Íslendinga fram undan. Því miður eru óveðursský að hrannast upp.
    Ég ætla að koma inn á nokkur þessi atriði. Ég sagði að ýmislegt í þessum pakka eigi að síður væri hægt að taka undir. Ég er sammála því að þegar til lengri tíma er horft er það íslensku atvinnulífi heppilegt að hverfa frá aðstöðugjaldinu. Á því er ekki vafi. Það var mikilvæg aðgerð sem mun vissulega hafa sín áhrif.
    Ég er líka tiltölulega sáttur við hátekjuskatt. Ég hef talið að til þess að ná sátt í þjóðfélaginu miðað við þann mikla launamun sem við búum við hafi hátekjuskattur verið nauðsynlegur. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að á einstaklinga sem hafa 200 þús. kr. á mánuði hafi verið sanngjarnt að leggja á það sem þeir hafa fram yfir það 5%. Ég hygg að það hafi átt að gefa einstaklingum aðeins meira rými því að kostnaður þeirra við margt er sá sami og hjónanna.
    Eins verð ég að segja um gengisfellinguna. Hún var staðreynd. Gengisfellingin var staðreynd, ekki vegna þess sem er að gerast úti í heimi heldur vegna hins sem hefur verið að gerast á tíma þessarar ríkisstjórnar. Hún var með aðgerðum sínum búin að fella íslenska gengið. Ég er í engum vafa um að gengisskráningin er mesta hagstjórnartæki sem Íslendingar eiga til þess að verja íslenskt atvinnulíf.
    Við heyrðum það í fréttunum um daginn að Danir höfðu á orði vegna vanda í þeirra atvinnulífi og vaxandi atvinnuleysis að þeir yrðu að fella sitt gengi til að verja sína framleiðsluatvinnuvegi og skapa atvinnu. Ég er sannfærður um það líka að á síðustu árum höfum við oft á fastgengistíma og þeim tíma þegar gengi íslensku krónunnar hefur verið rangt skráð tapað úr landinu heilum atvinnugreinum og mikilli þekkingu.
    Það er auðvitað fleira sem veldur því. Það er aðgerðaleysi ríkisstjórna gagnvart ýmsum atvinnugreinum. Hér hefur iðnaðurinn oft verið nefndur, skipaiðnaðurinn, fataiðnaðurinn, húsgagnaiðnaðurinn o.s.frv. Við höfum tapað á nokkrum árum 5 þús. störfum í iðnaðinum, allt á tíma hæstv. iðnrh. Jóns Sigurðssonar. Það er alvarlegt að slíkt skyldi ekki vera stöðvað. Það er náttúrlega hrikalegt fyrir íslenska þjóð sem lifir á fiskveiðum að svo skuli komið að útlendingarnir skuli stela öllum verkefnum af okkur við skipasmíðar og viðhald á skipunum með ríkisstyrkjum og niðurgreiðslu og við horfum á þessa verkþekkingu hverfa burt úr landinu.

    Ég vil minna á eitt atriði enn í áætlun ríkisstjórnarinnar sem ég gagnrýni ekki en sé ekki hvernig hún ætlar að framkvæma. Það er að koma í veg fyrir skattsvik og ná inn, ef ég man rétt, eitthvað á fjórða milljarð kr. Ég held nefnilega að með því einu að ganga í að setja réttlát skattalög gagnvart eintaklingunum og gagnvart atvinnulífinu hefði verið hægt að ná miklum peningum inn í ríkissjóð. Það er enginn vafi að nótulaus viðskipti eru mjög mikil. Ég veit að hv. alþm. verða mjög varir við þau viðskipti.
    Því miður rættist það ekki sem hér var haldið fram af hæstv. utanrrh., Jóni Baldvin Hannibalssyni, þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp og virðisaukaskattur í staðinn fyrir söluskatt. Þá sagði þessi hæstv. ráðherra að nú yrðu öll skattsvik á Íslandi úr sögunni. Það væri svo með virðisaukaskattskerfið að þar væri innbyggt eftirlit sem menn kæmust ekki hjá. En allt annað hefur komið upp á teningnum og menn óttast að 20--30 milljarðar renni í svarta hagkerfinu, eins og það er nefnt. Ég tek undir það að réttlætið er mikilvægt. Það er mikilvægt að breyta skattalögunum og stöðva skattsvikin og menn gjaldi keisaranum það sem keisarans er hvort sem þeir eiga fyrirtæki eða eru einstaklingar, að þeir borgi af efnum sínum. Það hefur verið og er mikilvægt verkefni fyrir Alþingi að endurskoða skattkerfið á Íslandi.
    Það er enginn vafi að það var ástæðulaust um leið og menn léttu aðstöðugjaldinu af ýmsum gróðafyrirtækjum að létta skattbyrðar svo mjög því við eigum sem betur fer ýmis stöndug fyrirtæki sem þola að á þau séu lagður skattur. Það hafa verið nefnd til sögunnar Coca-Cola, Eimskip, olíufélögin o.fl. o.fl. Það hefði verið sanngjarnt að breiðar herðar sterkra fyrirtækja sem eru mjög að hagnast tækju á sig einhverjar af þeim byrðum sem nú eru lagðar á herðar almennings í landinu. Það hefði verið hægt að hlífa fólkinu með lægri tekjurnar ef menn hefðu haft vilja til þess að setja aðeins meiri byrðar á þessi sterku fyrirtæki sem árum saman hafa skilað hagnaði og sannarlega mjög miklum gróða sem hægt er að sjá í reikningum þeirra.
    Ég minntist á gengið áðan og ég vil segja það að auki gagnvart ferðaþjónustu og fleiru sem er framtíðaratvinnuvegur sem verið er að leggja á byrðar að einhver sérfræðingur í ferðaþjónustunni sagði fyrir nokkrum árum að gengisskráning um allan heim þyrfti líklega að vera miðuð við hamborgara þannig að hamborgari kostaði svipað í dollurum í hvaða landi sem fólk kæmi til. Við verðum þessa auðvitað oft vör í sambandi við útlendinga, ekki síst þegar gengið er hér mjög rangt skráð. Þá vilja þeir forða sér sem fyrst burt úr landinu því að þeim þykir dýrtíðin mikil.
    Ég ætla hér að koma að nokkrum atriðum og sakna þess að hafa ekki ráðherrana til þess að ræða við. Hæstv. forseti veit kannski af þeim við hljóðnemann í einhverju herberginu. Hefur hæstv. forseti hugmynd um hvort þeir hafi farið að hvíla sig? ( Forseti: Forseti á ekki von á því að hæstv. ráðherrar hafi farið að hvíla sig. Þeir munu væntanlega vera í hliðarherbergjum. Forseti mun kanna það eftir ósk hv. þm.) Ég þakka fyrir. Því miður, hv. alþm., þá sýnist mér að þessar aðgerðir boði þann alvarleika í íslensku samfélagi að þjóðarsáttin sé úr sögunni og verðbólga og ýmsir erfiðleikar muni taka við á næstu dögum ef þessi ríkisstjórn heldur áfram störfum sínum. Við þurfum kannski aldrei fremur en nú á því að halda að í ríkisstjórn Íslands sitji menn sem hafi til þess dug og verklag að leiða saman ólík sjónarmið svo hagvöxtur og atvinnulífið megi á ný eflast.
    Ég hef komið inn á að það sem mér finnst að í þessum aðgerðum er að það vanti tekjujöfnunina. Byrðarnar séu því miður ekki settar á þá sterku heldur á ýmsa sem veikir eru. Ég sé að hæstv. forsrh. er hér kominn. Því miður mun hæstv. félmrh. vera fjarverandi vegna veikinda. Ég er ekki hissa þó hæstv. félmrh. hafi lagst í rúmið við þessar aðstæður. Ég er ekki hissa á því. Ég væri ekki hissa á því þó hún stæði líka við það að segja af sér við þessar aðstæður því að mörg þau fyrireit sem hún hefur gefið skjólstæðingum sínum eru nú svikin. Ég ætla að taka eitt dæmi.
    Vaxtabætur munu verða skornar niður um 500 millj. kr. eða 17%. Hvað hefur það að segja miðað við þær áætlanir sem þúsundir Íslendinga hafa gert þegar þeir reiknuðu sig inn í húsbréfakerfið? Ríkisstjórnin sker vaxtabætur niður um 500 millj. og raskar þeirri reikningsstöðu sem fólk hefur gert miðað við verðbólgulaust land og miðað við tekjur sínar. Ég er sannfærður um að þessi aðgerð verður til þess að hópur einstaklinga mun missa þær eignir sem hann hefur verið að kaupa. Ég er því ekkert hissa þó félmrh. liggi nú í rúmi sínu og hugsi um þá stöðu sem hún býr við og hvort hún á að halda áfram störfum í þessari ríkisstjórn. Þessi aðgerð mun koma í bakið á mörgum einstaklingum.
    Ég ætla að minnast á skatt sem mun hafa mjög örlagaríkar afleiðingar. Það er bókaskatturinn. Hann hefur kannski ekki afleiðingar þannig. Bækur verða keyptar og lesnar á Íslandi meðan fólk býr hér en ég hygg að það sé rétt sem framleiðendur bóka hafa kynnt að sú ákvörðun að leggja 14% virðisaukaskatt á bækur muni hafa þær afleiðingar að þessi verkefni munu að einhverju leyti hverfa úr landinu. Þolum við það á þessum tíma að setja á vafasaman skatt sem veldur slíku þegar við stöndum frammi fyrir mjög vaxandi atvinnuleysi?
    T.d. er upplýst í Morgunblaðinu í dag hversu alvarlegt atvinnuleysið er sem hefur þróast á tíma þessarar ríkisstjórnar. Hagstofan er nýbúin að gera úttekt á atvinnuleysinu á Íslandi. Hún segir að það sé 4,5% en það alvarlega í þeirri úttekt er að atvinnuleysi meðal ungs fólks á aldrinum 16--19 ára er 16%. Atvinnuleysi ungs fólks á Íslandi á aldrinum 16--19 ára er 16%. Það er meira atvinnuleysi hjá þessum aldurshóp en gerist í flestum Evrópulöndum. Þetta hefur gerst á þremur missirum eða á líftíma þessarar ríkisstjórnar. --- Atvinnuleysi meðal ungs fólks 16--19 ára er 16%. Atvinnleysi fólks á aldrinum 20--29 ára er 7,5%. Þetta eru váleg tíðindi. Þetta mun skiptast mjög jafnt á milli greinanna á Íslandi. Það er ekkert

síður langskólafólk en verkafólk sem býr við þessar aðstæður.
    Ég hélt því að þessi ríkisstjórn gætti sín mjög í þeim aðgerðum sem hún hefur staðið að að þær kæmu ekki þannig út að verkum væri hætt eða þau flutt úr landinu.
    Hér hafa menn mjög gagnrýnt skattinn á ferðaþjónustuna, sem ég tek undir, sem er að skila vaxandi hluta í gjaldeyristekjum. Í skálaræðum og á hátíðarstundum er mjög haldið á lofti mikilvægi ferðaþjónustunnar með réttmæti.
    Hitt er svo auðvitað alvarlegur hlutur að hér er verið að staðfesta matarskattinn að fullu. Það mun ekki létta byrðar þegna þjóðfélagsins. Hann mun birtast í því að menn eru með matinn allan í efsta þrepi skattsins, 24,5%. Ríkisstjórnin mun vera með í leynihólfum áætlanir um að fella burt endurgreiðslur sem áttu að koma á móti virðisaukaskattinum. Þetta hygg ég að sé í ýmsum leynipökkum sem ekki hafa verið teknir upp enn.
    Ég ætla líka aðeins að minnast á vexti. Ég spyr hæstv. forseta hvenær forseti treystir sér að setja ofan í við hæstv. ráðherra. Er það líðandi við þessar aðstæður þegar verið er að ræða um svo alvarlegar aðgerðir að þeim leyfist það, tíu að tölu, að enginn þurfi að vera í þessum sal? Er það leyfilegt? ( Gripið fram í: Það er ekki ásættanlegt.) Það er ekki ásættanlegt og verður ekki liðið. Hæstv. forseti, ég þarf að ræða við forsrh. Nú fer að reyna á það hvort hæstv. forseti er forseti ríkisstjórnarinnar eða þingsins. --- Ég sé að hæstv. utanrrh. er hér mættur.
    Það hefur merkilegur atburður gerst á þessum drottins degi. Morgunblaðið hefur verið staðfastasta blað heimsbyggðarinnar og mjög fast í formum. Þar hafa einstaklingarnir fram að þessu getað gengið að hverjum hlut á sínum stað. Nú hefur það gerst á þessum drottins degi að íslensk frétt er á forsíðu Morgunblaðsins. Þetta mun ekki hafa gerst síðan 23. jan. 1973, ef ég man rétt. Mér hefur verið sagt að það gerist aldrei nema um stórfréttir sé að ræða að Morgunblaðið birti íslenska frétt á forsíðu. Það þurfi annað hvort til eldgos eða einhverja gleðifrétt sem fær hjartað í ritstjórum Morgunblaðsins til þess að hoppa. Nú hygg ég að það hafi gerst að hjartað í ritstjórum Morgunblaðsins hafi hoppað því á forsíðu stendur: ,,Gjaldtaka ýtir undir sættir í þjóðfélaginu``.
    Hitt er annað mál að ástæða er til að óska hæstv. sjútvrh., Þorsteini Pálssyni, til hamingju með að hafa fengið frið til þess að framfylgja sjávarútvegsstefnu fyrirrennara síns, Halldórs Ásgrímssonar. Hins vegar hefur Alþfl. látið plata sig í þessum málum og sýnir það mjög hversu pólitískur refur Þorsteinn Pálsson er að verða. Þorsteinn hefur sagt sem svo við sína menn: Því einu þurfum við að ná fram að fá að fylgja þessari stefnu Halldórs Ásgrímssonar en við skulum plata Alþfl. Við skulum hafa gjaldtökuna 1996. Því þið gerið ykkur væntanlega grein fyrir því, hefur hann sjálfsagt sagt, að Alþfl. verður ekki í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. ( Gripið fram í: Hann verður dauður.) Ekki skal ég segja um að Alþfl. verði dauður en því er með fullum rökum hægt að spá að hann muni mjög minnka við þessar aðgerðir því í nokkra mánuði hef ég ekki heyrt heitið Jafnaðarmannaflokkur Íslands tengt nafni Alþfl. og menn sjá að það nafn á ekki lengur þar heima.
    Það er svo að alla sína ráðherratíð hefur Þorsteinn Pálsson glímt við tvö öfl: Annars vegar við skattagleði Alþfl. á sjávarútveginn, hins vegar við Morgunblaðið sem hefur þrálátt heimtað skattlagningu á sjávarútveginn. Ég óska þess vegna Þorsteini Pálssyni til hamingju með hversu vel hann hefur snúið þessa tvo andstæðinga sína af sér. Það er snilldarbragð og hefur ekki snjallara bragð sést í þessari ríkisstjórn. Hygg ég nú að vinsældir Þorsteins muni nokkuð vaxa við þessar aðgerðir og megum við gæta okkar félagar hans á Suðurlandi þegar hann hefur svo risið gegn öfgafullri stefnu Alþfl. ( Gripið fram í: Alþfl. er horfinn af Suðurlandi). Alþfl. hefur ekki verið til á Suðurlandi í nokkur kjörtímabil. (Gripið fram í.) Eru þó ágætismenn þar ýmsir í þeim flokki og væru betur komnir inni á þingi en margir þeir frjálshyggjumenn sem nú eru í báðum þessum stjórnarflokkum. --- Hæstv. forseti, forsrh. er ekki genginn enn í salinn og ég hygg að hann fari í kvöld með umboð hæstv. fjmrh. (Gripið fram í.) Er hæstv. fjmrh. í rúminu líka? ( Forseti: Hæstv. fjmrh. hefur boðað veikindaforföll í dag. Forseti hefur nú þegar gert hæstv. forsrh. aðvart um að hans sé óskað í salnum.) Það er greinilegt að þessar aðgerðir hafa haft mjög afgerandi áhrif á heilsufar hæstv. ráðherra.
    Ég ætlaði aðeins að minnast á það mikilvæga atriði að ríkisstjórnin heitir vaxtalækkun. Ég held að það sé mjög mikilvægt bæði fyrir atvinnulífið og einstaklingana að það markmið náist. Ég er sannfærður um að ef hún nær því fram að minnka skattsvikin og fer í jöfnunaraðgerðir þar sem sterk fyrirtæki yrðu að borga þyngri skatta, sem víst er ekki að vanta, þá muni halli á fjárlögum minnka og þá eru komnar aðstæður til að lækka vexti. Hins vegar er það kannski sorgarsagan á þessari stundu að það er ríkisstjórnin sem hefur farið með vaxtaákvarðanirnar í landinu. Við skulum aðeins fara yfir stöðuna í þeim efnum:
    Ríkisstjórnin sem hefur reynt að veikja ríkisbankana með eilífum hótunum um að þeir verði seldir stóreignamönnum á Íslandi rekur eigi að síður tvo banka að auki. Annar bankinn heitir Lánasýsla ríkisins. Hinn bankinn heitir húsbréfabanki. Þessir bankar safna bara peningum. Við skulum aðeins fara yfir þá stöðu. Nú stöndum við frammi fyrir því í bankakerfinu að þar eru ekki að safnast fyrir innstæður. Sennilega standa allir bankarnir frammi fyrir því að innstæður og sparifé minnkar í bönkunum á þessu ári. En bankar ríkisstjórnarinnar, sem eru Lánasýsla ríkisins og húsbréfabankinn, hafa mjög safnað peningum á þessu ári. Ég hef alltaf verið sannfærður um að það er mjög einfaldur hlutur að lækka útlánsvexti. Til þess að lækka útlánsvexti verða menn að lækka innlánsvexti. Þá verða menn að lækka vextina á sparifénu. En ríkisstjórnin hefur þjónað vel þeim ríku þann tíma sem hún hefur setið. Fyrir sex mánuðum síðan, á þeim tíma sem þeir hafa talað um vaxtalækkanir, hefur það t.d. gerst að nýr lánaflokkur hefur verið stofnaður sem heitir ríkisbréf. Hann var stofnaður fyrir sex mánuðum og þar hefur ríkisstjórnin á þessum sex mánuðum safnað 3 milljörðum kr. bara í þennan eina flokk til að þjóna stóreignamönnum sem eiga peninga. Hvaða vextir skyldu vera borgaðir, hæstv. utanrrh., á þessa peninga? Í dag er verið að borga 10,7% vexti á þessa peninga. Hér um bil sömu vexti og útlán bankanna eru á. Algengustu útlán bankanna eru í dag á 11--12% vöxtum. Hvernig skyldi staðan vera í allri þessari söfnun á peningum? Bankarnir í landinu hafa safnað inn í bankakerfið 140 milljörðum kr. í sparifé. Ríkisbréfin hafa safnað á þessu ári 3 milljörðum. Í ríkisvíxlum liggja 16 milljarðar sem borgaðir eru um 10% vextir á. Í spariskírteinum, sem eru með um 8% vexti, eru 50 milljarðar. Í húsbréfum eru 32 milljarðar sem greitt er á um 8% vextir. Þarna eru yfir 100 milljarðar í peningum sem verið er að greiða á vexti eins og útlánin eru í bönkunum, sem eru 11--12%. Þess vegna er ekkert einfaldur hlutur að lækka vexti fyrr en þessi stórkostlegu tilboð ríkisstjórnarinnar til eigendanna á þessum peningum lækkar. Ég hefði kannski haldið að það væri hægt að gera það með handafli. Að segja sem svo: Þessi 9 eða 10% ganga ekki upp. Þið ágætu sparifjáreigendur sem eruð hér í ágætum viðskiptum við okkur verðið að sætta ykkur við það að fara niður í 7% í fyrstu lotu. Þeir hefðu fúlsað við því nokkra daga en þeir hefðu ekki átt betri kost.
    Það er auðvitað mjög mikið atriði að ríkisstjórnin stígi ekki röng skref í þessum efnum eins og hún hefur því miður gert á þessu ári með þessum nýja flokki sem ég minntist á. Hann veldur því fyrst og fremst að vexti er ekki hægt að lækka. Það verður ábyrgðarhlutur í bönkunum að lækka vextina á sparifénu eins og þeir eru því þar er verið að bjóða upp á 2--3% og á bestu bókum 5% vexti. Ef menn gengju þar í vaxtalækkun þýddi það að menn færu með sína peninga.
    Að þessu vildi ég koma hér og tel að þar hafi ríkisstjórnin alla möguleika til þess að taka á.
    Hvað fjármagnsskattinn varðar, sem ekki er settur á, þá get ég tekið undir það með ríkisstjórninni að það geti verið hættulegt við ríkjandi aðstæður. Um áramótin búum við í opnu landi hvað fjármagnið varðar. Ég held þess vegna að hyggilegt sé að stíga þar varlega til jarðar svo sú skattlagning valdi ekki vaxtahækkun og fjármagnsflótta. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að móta til framtíðar skatt sem segir að fjármagn og allar eignatekjur séu skattlagðar með einhverjum hætti. Þar eiga menn að móta sér fimm ára áætlun og stíga sem fyrst einhver skref í þeim efnum en ganga ekki mjög langt í hverju skrefi.
    Það er enginn vafi á því að þessi jólagjöf ríkisstjórnarinnar boðar ekkert hamingjuár hjá launafólkinu. Það gengur að því sem vísu núna 1. jan. að fram undan er mesta skattaár allra tíma á Íslandi. Það er mesta skattaár allra tíma á Íslandi. Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., ber alla ábyrgð á því. Hann ber alla ábyrgð á þeirri gjörð og hefur þar brugðist mörgum sem trúðu því að ýmis þau ummæli sem hann hét fyrir kosningar mundu standast.
    Hæstv. forseti. Það er enginn vafi á því að þessi ríkisstjórn mun eiga erfiða daga fram undan á hinu nýja ári eftir að hafa gefið þennan jólapakka því að um hann ríkir engin sátt og almenningur og forustumenn hinna mörgu greina atvinnulífsins kalla aðgerðirnar stríðsyfirlýsingu þar sem ekki hefur verið rétt fram sáttahönd. Það kemur ekki á óvart. Það var það sem maður bjóst við en það er sorglegt fyrir þjóðina við þessa aðstæður að þurfa að búa við ríkisstjórn sem æ meir líkist rekaldi.