Sala rafmagns til skipa

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 13:38:47 (2640)

     Frsm. iðnn. (Guðjón Guðmundsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. iðnn. um till. til þál. um sölu rafmagns til skipa í höfnum landsins. Nál. er á þskj. 319 og er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og telur að efni hennar sé þarft. Hins vegar hefur komið fram að iðnrh. hefur nú skipað nefnd, svipaða þeirri sem flm. leggja til, til að sinna svipuðum verkefnum. Nefndin leggur því til að till. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Sigríður A. Þórðardóttir, Tómas Ingi Olrich, Svavar Gestsson og Kristín Einarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.``
    Undir nál. skrifa Össur Skarphéðinsson, Guðjón Guðmundsson, Elín R. Líndal, Pálmi Jónsson og Finnur Ingólfsson.
    Eins og ég greindi frá í framsöguræðu minni við fyrri umr. var þetta mál lagt fram á síðasta þingi, nánar tiltekið í lok mars en komst þá ekki á dagskrá vegna þess mikla annríkis sem var hér í þinginu á síðustu vikum þess í vor. En 20. apríl mun svo iðnrh. hafa haldið fund með fulltrúum Hafnasambands sveitarfélaga þar sem ákveðið var að skipa nefnd sem gera skyldi tillögur um sölu rafmagns til skipa í höfnum landsins. Þegar við flm. komumst að því um mánaðamótin september/október í haust að nefndin hafði aldrei verið skipuð, þá ákváðum við að endurflytja þessa tillögu en um svipað leyti og tillagan var lögð fram hér í þinginu að nýju í október, þá skipaði hæstv. iðnrh. starfshóp til að fjalla um þetta mál og skal starfshópurinn ljúka störfum um næstu áramót.
    Í þessum starfshópi sitja fulltrúar þeirra samtaka sem gert var ráð fyrir í tillögu okkar og þar með hefur þessu þarfa máli verið hrint í framkvæmd og ber að fagna því.