Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 13:45:57 (2643)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það frv. sem hér er lagt fram um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana o.fl. leiðir hugann að því að við höfum komið okkur upp sveit manna sem venjuleg lög ná ekki til. Sem betur fer er ekki mikið af þessari sveit á Íslandi og þess vegna kemur þetta yfirleitt ekki að sök. Hér stendur þannig á að það eru fyrst og fremst þeir sem starfa fyrir erlend sendiráð hér sem njóta þessara forréttinda. Þeir njóta þess m.a. að sendiráðspóstur sem kemur til þeirra er ekki skoðaður hvort sem þar er um fasta hluti að ræða, hvort sem þar eru flutt inn vopn eða annað. Stórir trékassar eins og fluttir hafa verið inn til sendiráða á Íslandi, aflangir og langir, hafa ekki verið skoðaðir og vekur það þó nokkra athygli.
    Aftur á móti þótti mér það dálítið merkilegt þann tíma sem ég dvaldi í New York á þingi Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma, að þá var það mikið hitamál þar hvort það væri sanngjarnt að starfsmenn alþjóðastofnana hefðu þau forréttindi t.d. ef þeir nauðguðu kvenmanni og björguðu sér svo á handahlaupum inn í viðkomandi sendiráð, þá væri ekkert hægt að gera. Þá væru þeir friðhelgir og það ætti bara að senda þá úr landi í rólegheitunum án þess að nokkrum lögum yrði komið yfir þá.
    Ég tel að það sé búið að ganga allt of langt í friðhelgi gagnvart þessum mönnum, allt of langt. Ég tel að það nái nánast engri átt að þannig sé staðið að málum að það séu engin lög sem ná yfir þessa menn. Það eigi bara að vísa þeim úr landi hvað sem þeir gera. Og þó að ég geti tekið undir það sjónarmið sem hér hefur komið fram hjá hv. flm., 3. þm.

Reykv., að það sé ekki eðlilegt að allir ráðherrar geti gefið út reglugerðir varðandi þetta atriði og hér sé viss samræming, þá tel ég engu að síður rétt að mæla þau varnaðarorð sem ég hef látið hér falla. Ég er ekki búinn að sjá það að það yrði nein ánægja á Íslandi ef erlendur sendiráðsmaður yrði til þess að valda dauðaslysi í umferðinni, hvaða ástæða sem ylli, og menn stæðu frammi fyrir því að hann mætti bara fara úr landi friðhelgur. Þetta er út af fyrir sig nokkurs konar yfirstétt sem er búin að hreiðra um sig í skjóli utanríkisþjónustu allra landa og þarf ekki að lúta lögum.
    Ég held þess vegna að það þurfi að vera mikið aðhald, að víkka ekki þessar heimildir. Í 4. lið í upptalningu í 1. gr. stendur: ,,þeir sem taka þátt í rekstri mála fyrir alþjóðastofnunum`` --- þeir eiga að vera friðhelgir skilyrðislaust hvað sem þeir gera. Eru einhver rök sem mæla með þessu? Af hverju geta þeir ekki lotið eðlilegum lögum í því landi sem þeir eru?
    Ég veit það ekki en mér finnst nokkuð langt gengið þegar menn taka ákvarðanir um að veita jafnstórum hópum þau réttindi að brot þeirra, ef verða í landinu, njóta allt annarrar umfjöllunar en annarra manna. Þetta gildir að sjálfsögðu jafnt um innflutning á eiturlyfjum sem um allt annað. Ég hefði þess vegna viljað koma því á framfæri og geri það hér með að ég ætlast til þess að ráðherrar hafi mjög þröngar reglur um framkvæmd þessara laga.