Ljósatafla í þingsal

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 14:06:50 (2646)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það undraði mig mjög við atkvæðagreiðslu áðan hversu miklar breytingar urðu á fjarvistum í salnum án þess að nokkur maður færi út. Til skiptis voru 23 fjarverandi upp í það að vera 29 fjarverandi. Má það með ólíkindum heita þegar enginn sést fara úr salnum. Þess vegna vil ég enn ítreka þá spurningu sem hér hefur oft komið fram og ávallt verið svarað ljúfmannlega af forsetastóli: Hvenær má gera ráð fyrir að hér verði settur upp sá ljósabúnaður að það sjáist hvernig menn greiða atkvæði þegar atkvæðagreiðslan fer fram? Nú er búið að veita fé til þess af fjárlögum og það er að verða þó nokkur tími síðan að okkur var lofað að þetta kæmi e.t.v. á morgun. Að vísu er það svo með okkur flest að við eigum aldrei eftir að lifa morgundaginn. Við komumst ekki það langt og verðum að sætta okkur við að lifa daginn í dag. Þess vegna hefði ég talið jákvæðara að það yrði reynt að tímasetja það miðað við einhvern mánaðardag hvenær við fengjum að sjá þessa ljósatöflu. Því verður náttúrlega ekki unað að horfa á svona leikaraskap. Það verður þá að beita því að óska eftir nafnakalli í miklu ríkari mæli ef það er ekki hægt að hafa það á hreinu hve margir eru fjarverandi í salnum þegar atkvæðagreiðsla fer fram.