Ljósatafla í þingsal

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 14:09:09 (2648)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Kastró var legið á hálsi fyrir að ætla að fresta jólunum en ég man ekki betur en þetta hafi átt að vera klárt í ágúst. Mig undrar satt best að segja ef þeir sem bera ábyrgð á vinnubrögðum í þinginu og vinnu í desembermánuði, sem fyrirsjáanlega verður mikil, ætla að hafa það sem mottó að ergja þingheim með því að geta ekki leyst þessi mál. Hér er talað um tæknileg vandamál. Það hefur enginn beðið íslenska tæknifræðinga að finna eitt eða neitt upp í þessu sambandi. Hér er verið að tala um að flytja inn erlenda tækni og koma henni fyrir í þinghúsinu. Mér er því nánast óskiljanlegt hvernig forseti getur leyft sér að tala um að þetta sé á rannsóknarstigi eins og það eigi að fara að finna hjólið upp aftur. Ég vil ítreka að það kallar á tafir á vinnu í þinginu ef þessi mál komast ekki á hreint.