Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 14:18:05 (2651)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég á sæti í iðnn. en var fjarverandi afgreiðslu þessa máls og varamaður minn skrifaði upp á það með fyrirvara. Ég vil taka það fram að ég er út af fyrir sig ekkert að hafa á móti því að þetta frv. verði samþykkt á Alþingi. Ég kveð mér hins vegar hljóðs til að benda á að þetta mál er nokkuð dæmigert fyrir það sem við eigum í vændum á þinginu. Þetta frv. er eins og fram hefur komið flutt í tengslum við aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði og hér erum við að lögtaka reglur frá Evrópubandalaginu. Ég ætla að segja ofurlítið frá því hvernig sú lögtaka fer fram. Fjölmiðlar hafa sinnt þessu máli örlítið og fréttaskot var um það á Stöð 2 fyrir nokkrum kvöldum síðan.
    Þetta mál er þannig til komið að það kemur í póstinum eða á faxinu frá útlöndum. Einhver í ráðuneytinu sest við að þýða textann en því miður þá gerði hann það vitlaust. Textinn er prentaður á þingskjali. Ráðherrann mælir fyrir málinu en hefur ekki hugmynd um um hvað málið snýst eins og menn geta sannfærst um ef þeir lesa ræðu ráðherranns við 1. umr. Málið fer til hv. iðnn. Í iðnn. er samviskusamt fólk og það sest yfir þetta mál og fer að reyna að kynna sér í hverju þetta liggur undir öruggri forustu formannsins. Í fyrstu lotu vildum við afla okkur upplýsinga frá hinum færustu aðilum í landinu um hvað í þessu fælist. Ég hef því miður ekki haft tíma til að sækja umsagnirnar sem eru út í Þórshamri og liggja þar fyrir. Eðlisfræðistofnun háskólans tilkynnti okkur það að þeir vissu ekkert um hvað þetta mál snerist, hefðu ekki mannafla til að kynna sér það og vildu ekki gefa neina umsögn. Þeir virtu okkur þó svars og sendu þetta á blaði og liggur það fyrir í gögnum iðnn. Svipað fór með Einkaleyfastofuna. Hún gerði þetta líka. Á síðari stigum málsins komst upp að frv. hafði verið vitlaust þýtt í upphafi og eftir að búið var

að breyta þingskjalinu kom í ljós að textinn var skiljanlegur ef menn lögðust yfir hann. Iðnn. hefur, eins og hv. formaður hennar upplýsti, eytt þó nokkrum tíma í þetta mál. Við erum út af fyrir sig samþykk því að það verði gert að lögum.
    Þetta er kannski skýrasta dæmið sem við höfum haft enn þá um það hvað er í vændum í framtíðinni þegar Alþingi verður orðið afgreiðslustofnun fyrir Evrópubandalagið.