Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 14:47:50 (2658)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég tók til máls við 1. umr. þessa máls þegar hæstv. iðnrh. mælti fyrir því. Ég lét þá í ljós það álit mitt eða þekkingarskort sem lengi vel var á þessu máli. Ég viðurkenni fúslega að þegar fyrir málinu var mælt áttaði ég mig ekki á því um hvað málið snerist. Ég hef hins vegar eins og fleiri þingmenn átt þess kost að sitja í hv. iðnn. og hef þess vegna getað kynnt mér málið þar með aðstoð meðnefndarmanna minna og sérfræðinga sem kallaðir hafa verið til. Ég viðurkenni að ég er farinn að botna býsna mikið í þessu máli. Ég tek undir að ég held að þó svo það eigi kannski ekki við einmitt þessa stundina að setja lög á þessu sviði þar sem þessir þættir snerta okkur mjög lítið í dag er þetta framtíðarmál. Ég tek undir það með hv. formanni iðnn. Það er hins vegar ljóst að það voru fleiri en ég sem ekki áttuðu sig á því hvað hér var um að ræða þegar mælt var fyrir málinu. Hæstv. iðnrh. áttaði sig alls ekki á því fyrir hverju hann var að mæla úr þessum stóli á þeim tíma. Það kom auðvitað best í ljós þegar menn fóru að skoða málið í iðnn. því hann var nákvæmlega í þeim sama vanda og við að hann ruglaði saman smárásum og hálfleiðurum af þeirri ástæðu að það var þannig sett upp í frv. Þegar málið er skoðað í því samhengi er það algerlega óskiljanlegt og ekki hægt að átta sig á því um hvað málið snýst fyrr en menn eru búnir að leiðrétta þennan grundvallarmisskilning sem í frv. er. Það er því ekkert skrýtið þó að hv. 2. þm. Vestf. væri líka ruglaður í þessu eins og þetta lá fyrir af því að hann var ekki með brtt. sem búið var að gera við frv. og hér liggja fyrir frá hv. iðnn.
    Ég held hins vegar að það þjóni ekki miklum tilgangi að vera að skattyrðast um það hvort menn hafa skilið þetta. Auðvitað tel ég að hv. formaður iðnn. ætti að skýra málið örlítið betur en hann hefur gert því hann hefur alla burði til að gera það. Hann þekkir málið ágætlega og það sýnir náttúrlega um margt yfirburðahæfni hans á þessu sviði að hann hefur treyst sér til að skýra málið út fyrir okkur og jafnvel sett ofan í við embættismennina sem komið hafa á fundi nefndarinnar. Hann hefur þar af leiðandi meiri þekkingu en raunvísindadeild Háskólans sem ekki treystir sér til að leggja mat sitt á málið og gat um það, svo ég vitni í álit þeirrar virtu stofnunar, með leyfi forseta:
    ,,Við erum þó sammála um að í skorinni sé ekki nægjanleg þekking á tæknilegum atriðum þessa máls til þess að hún treysti sér til að gefa efnislega umsögn um þau.``
    Sama gilti reyndar um Einkaleyfastofuna. Í umsögn þeirrar stofu segir: ,,Stofnunin hefur ekki á að skipa mönnum með sérþekkingu á því sviði sem frv. fjallar um og treystir sér því ekki til að gera beinar athugasemdir við tæknileg efnisatriði frv.``
    Hins vegar mætti forstöðumaður Einkaleyfastofunnar á fund iðnn., skýrði nokkra þætti frv. sem ég held að hafi verið til þess að hjálpa hv. nefndarmönnum við að skilja málið frekar. Ég tel því að hv. formaður iðnn. ætti að gera örlítið gleggri grein fyrir málinu en hann er búinn að gera vegna þess að hann hefur alla burði til að gera það.
    Fyrirvari minn við þetta mál byggðist fyrst og fremst á því að í upphafi athugasemdar við frv. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Með aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði höfum við skuldbundið okkur til að aðlaga íslenska löggjöf að hluta til að reglum Evrópubandalagsins. Frv. til laga um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum er eitt þeirra frv. sem lögð eru fyrir Alþingi í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.``
    Síðan var í 11. gr. frv. gert ráð fyrir því að lög þessi öðluðust gildi ,,um leið og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði öðlast gildi að því er Ísland varðar.``
    Þessi breyting var gerð, en eftir stendur í greinargerðinni að þetta er lagt fram vegna samningsins. Að mínu viti hefði verið hægt að leggja málið fram án þess að gera það í beinum tengslum við samninginn og liggur ekki á eða hefði a.m.k. ekki legið á að ganga frá því sem lögum frá Alþingi nema af því að samningurinn kveður á um slíkt.