Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 14:58:17 (2660)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er óhjákvæmilegt að um þetta mál verði nokkur umræða vegna þess að svo er frá þessu gengið að undrun sætir. Hér er um að ræða erindi eða mál, sem er beinlínis sent frá útlöndum, um flókin rafeindatæknileg vandamál. Það virðist vera að einhver maður hafi verið settur í að þýða þetta sem ekkert vissi um þau fræði sem frv. fjallar um. Það er kannski ástæða til þess að undrast að hæstv. iðnrh., sem enginn frýr vits, skuli senda frá sér og tala fyrir máli sem svo óvandlega er undirbúið. Hér sagði hv. 17. þm. Reykv. að þingmenn skyldu bara lesa greinargerð. Það er ekki auðvelt vegna þess að nú er flutt brtt. við 2. gr. Í frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hálfleiðari er fullbúin vara eða vara á framleiðslustigi, sem . . .  `` Síðan er talið upp hvað hún hefur sér til ágætis. Það kemur í ljós að þarna á alls ekki að standa hálfleiðari heldur smárás. Hvernig er athugasemd við þessa grein undir liðnum Athugasemdir við einstakar greinar? Jú, til að skýra þetta fyrir mér, sem reyndi að lesa þetta, stendur, með leyfi hæstv. forseta, um 2. gr.:
    ,,Í hugtakaskilgreiningum 2. gr. er alfarið stuðst við þær skilgreiningar er koma fram í tilskipun EB varðandi þetta efni.``
    Þetta er aldeilis upplýsandi fyrir fáfróðan lesanda og nær náttúrlega ekki nokkurri átt. Það er ekki einu sinni hirt um að birta þessa umræddu tilskipun EB eða reynt að gera tilraun til að útskýra hvað hér er á ferðinni. Ég er enn í vafa, ég veit ekki hvort það er

rétt sem stendur í greinargerð á bls. 4 og vil spyrja hv. formann nefndarinnar um það. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Munurinn er sá að ,,þrykkt`` er á þunnan hálfleiðarakubb en ekki silkiefni . . .  `` Nú er ég ekki alveg viss. Er þetta ekki smárásarkubbur? Nú veit ég það ekki en grunur minn er sá að þarna þyrfti að breyta ef ég er ekki að leggja of mikið á minn litla og þreytta heila. Ég held því satt að segja að eftir að búið er að breyta sjálfu frv. sé ekki haus eða hali á greinargerðinni. Og guð hjálpi síðari tíma fræðimönnum sem ætla að leita frekari skýringa á frv. í greinargerð. Svona er auðvitað ekki hægt að ganga frá nokkru máli. Auðvitað á bara að vísa þessu máli frá og óska eftir því að það verði unnið betur.
    Ég hef eina efnislega athugasemd sem er mér skiljanlegri en sú þvæla sem hér hefur verið afhjúpuð. Það er brtt. við öldungis óskiljanlega grein sem var 5. tölul. 6. gr. Hann hljóðar nú svo eftir að búið er að breyta honum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Óheimilt er að koma í veg fyrir að sá sem eignast svæðislýsingu smárásar án þess að vita að einkaréttur er þegar til staðar nýti sér hana í atvinnuskyni, enda getur rétthafi sótt sér sanngjarnar bætur, sbr. 8. gr.``
    Nú þekki ég eins konar einkaleyfi af reynslu sem er réttur til eigin hugverka. Það sem þarna er sagt, ef ég skil þetta rétt, ætla ég færa yfir í heim bókmenntanna: Hver sem er má gefa út bækur ákveðins höfundar þótt hann viti að einkarétturinn sé fyrir hendi því hann getur þá bara sótt sér bætur. Skil ég þetta ekki rétt? Það er verið að segja hér að óheimilt sé að koma í veg fyrir að sá sem eignast svæðislýsingu smárásar nýti sér hana í atvinnuskyni þótt hann viti að aðrir eigi einkaréttinn. Ég spyr, hæstv. forseti: Er þetta siðlegt athæfi? Hingað til hefur það ekki þótt vera það á öðrum sviðum í samskiptum manna eða stofnana. Þarna er ósköp einfaldlega verið að segja: Það er allt í lagi að brjóta lög því þá verður bara sá sem brotið hefur verið á að sækja rétt sinn til dómstóla, geri ég ráð fyrir. Ég spyr: Er það sæmandi þessari stofnun, 1000 ára gamalli, að setja lög sem þessi?
    Getum við ekki fallist á það, hæstv. forseti, að þessu máli verði hreinlega annaðhvort vísað aftur til nefndarinnar með beiðni til hennar og hæstv. ráðherra, sem er einn vitrastur maður á Íslandi og áreiðanlega ekki tilbúinn til að afgreiða þetta sem lög frá Alþingi ef hann hefði hlýtt þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag, um að þeir setjist niður og fari í gegnum þetta með lærðustu rafeindatæknimönnum. Í fyrsta lagi að fara yfir lagatextann og í öðru lagi greinargerðina. Menn skulu aldrei vanmeta það að greinargerð skiptir máli. Hún er jafnan notuð til lögskýringar og það vill áreiðanlega allt of oft brenna við á hinu háa Alþingi að menn gjörbreyti lögum en hirði í engu um að breyta greinargerðinni til samræmis við það. Ég leyfi mér, frú forseti, að vara við endileysu sem þessari fyrir utan það að öllum er óskiljanlegt að svo brýna nauðsyn beri til að afgreiða þetta mál frá þinginu að ekki sé tími til að gera það sæmilega.
    Nú er ekkert af þessu framleitt hér í landi og engar sérstakar líkur til þess að svo verði gert. Maður spyr auðvitað sjálfan sig á endanum: Er öruggara að tryggja sér réttindi til eilífðarvélarinnar ef hún skyldi halda innreið sína til okkar góða lands? Ég bið menn að hugsa sinn gang í þessu efni.