Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 15:20:21 (2665)

     Frsm. iðnn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa tveir þingmenn gert að umræðuefni síðustu mgr. 1. gr., m.a. hv. þm. Jón Helgason. Af því að menn hafa tekið hér samlíkingu við tunnu og hvernig hlutum sé raðað inn í tunnuna, þá þýðir þetta það að verndin nær til þess hvernig hlutunum er raðað inn í tunnununa, þ.e. hinnar þrívíðu hönnunar á rásinni.
    Ég vil segja það, virðulegi forseti, að ég skil vel að þetta tæknilega mál vefjist fyrir þingheimi. Ég get fallist á að þessari umræðu verði ekki lokið fyrr en við fengjum, samkvæmt ágætri ábendingu hv. þm. Jóns Helgasonar, skýringarmynd af því hvernig þetta er gert. Það er hárrétt sem þingmaðurinn sagði að þetta mál, sem er í eðli sínu dálítið flókið, mundi skýrast miklu betur ef það væri sett upp á mynd. Áður en umræðunni lýkur mun ég sem formaður iðnn. hlutast til um að hér verði dreift skýringarmynd af því hvernig smárás er og ég hygg að það mundi skýra þetta betur fyrir þingheimi.
    Ég tel enga þörf á því að endurskrifa frv. Ég held að verstu agnúarnir hafi verið sniðnir af því og tel því fráleitt að vísa því aftur til iðnn. Ég vil líka segja af því að menn eru að tala um hvers vegna samþykkja ætti frv. hér og nú að þá er ákveðin þörf á því. Sú þörf stafar af því að Evrópubandalagið hefur veitt Íslendingum þessa vernd og hér er um að ræða gagnkvæmni. Evrópubandalagið og ríki þess hafa veitt okkur verndina og reyndar ýmsum öðrum löndum og endurgjaldið er að viðkomandi lönd veiti ríkjum Evrópubandalagsins sömu vernd.
    Nú er það svo að á Íslandi eru í fæðingu ýmis hugbúnaðarfyrirtæki sem mér er sagt að muni í framtíðinni stefna á að hefja slíka framleiðslu til útflutnings. Ég bendi á að ýmis

fyrirtæki eru nú þegar komin í útflutning á hugbúnaði til landa Evrópu og þess vegna er þetta mikilvægt. Við erum að standa við okkar hluta af tilteknum samningi.
    Menn tala um smárásir og skilja ekki hvað í því orði felst. Smárásin er ný kynslóð rafeindarása. Hún er fullkomin rás, þ.e. heildstæð. Áður fyrr voru rafeindarásir samsettar, ekki bara úr rásinni sjálfri heldur ýmsum íhlutum, díóðum, þéttum og viðnámum. Það gerði það að verkum að setja þurfti þessa hluti saman sem aftur leiddi til þess að þeir urðu tiltölulega stórir. Þessi nýja rás gerir kleift að leiða þetta allt saman í eitt. Þetta er ein eining. Það er hægt að setja smárásirnar niður á litla flögu, ekki bara eina smárás heldur mörg hundruð smárásir. Þar með er hægt að setja upp mjög flóknar tækniskipanir og mjög flókinn rafbúnað í miklu minni einingu en áður. Þetta hefur verið undirstaðan að sérstakri tækni sem notuð er í geimvísindum og ýmsu öðru. Galdurinn við það að koma sem flestum af þessum rásum fyrir á tiltekinni einingu felst í svæðislýsingunni. Svæðislýsingin er í raun hönnunin á uppröðun rásanna. Þess vegna getum við ekki kallað svæðislýsingu rásarteikningu vegna þess að rásarteikning er bara í tvívíðu formi. Þarna er um að ræða rás sem liggur ekki bara á yfirborði tiltekins leiðara heldur líka inn í hann, með öðrum orðum í þrívídd. Svæðislýsingin felst í því að koma sem flestum rásum sem haganlegast fyrir á sem smæstri einingu og í því liggur m.a. auðurinn sem hægt er að fá úr þessu.
    Líking hv. þm. Guðrún Helgadóttir við bækur er í áttina en ekki alls kostar rétt. Þegar hv. þm. skrifar bækur er hún að beita hugviti en hún er jafnframt að beita sköpunargáfu. Menn líta ekki svo á að þegar svæðislýsing er gerð séu menn að beita sköpunargáfu heldur einungis hugviti. Það felst ekki frumleiki í því svo það hefur ekki nægilegt nýnæmi til að bera að t.d. sé hægt að fá á því einkaleyfi. Hvers vegna er þá þörf á þessari vernd? Það er vegna þess að það er geysilega flókið og erfitt að hanna þessar rásir svo rýmið sé nýtt sem best en það er ótrúlega auðvelt að afrita þær, það er því auðvelt að stela þeim. Það er auðvitað gert í stórum stíl og þess vegna er verndarinnar þörf. Þess vegna getur sú staða komið upp að einhver eignist smárás í þeirri góðu trú að hann hafi réttinn til þess að nýta hana en í rauninni hafi hún bara verið afrituð. Þetta gerist, er mér sagt, tiltölulega oft úti í hinum stóra heimi. Þá er lagt til, og það er byggt á því sem gert er annars staðar, að í staðinn fyrir að draga viðkomandi til saka greiði hann rétthafanum það sem dómstólunum þykir vera sanngjarnar bætur. Hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur mundi aldrei koma til hugar að gefa út bók sem einhver kæmi með til hennar vegna þess að hún skrifar bækur sjálf.
    Virðulegi forseti. Ég hygg að ég hafi varpað örlítið skýrara ljósi á þetta flókna mál og lýsi því aftur yfir og tek undir með mönnum sem hér hafa talað: Það var afskaplega óheppilegt í hvaða formi frv. kom til nefndarinnar því það var satt að segja þannig að lykilhugtökum var víxlað sem gerði frv. mjög erfitt til skilnings. Ég get fyrir mitt leyti fallist á að umræðunni verði ekki lokið fyrr en búið er að dreifa hér teikningum af þessu og skýringum til einföldunar. Ég legg aftur áherslu á það að þó að menn séu í dag ekki í framleiðslu á smárásum eru hér sem betur fer ungir athafnamenn og ungir menntamenn sem hyggja á slíka framleiðslu. Við fengum t.d. á okkar fund í iðnn. fulltrúa frá Iðntæknistofnun sem lagði mikla áherslu á að þetta yrði samþykkt. Hann taldi að það væri skammt í það að hér yrði framleiðsla á smárásum. Þess vegna er verið að búa í haginn til framtíðar auk þess sem við erum líka að veita gagnkvæmni vegna þess að við njótum nú sömu verndar í öðrum löndum.