Staðlar

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 15:35:08 (2671)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 268 og einnig kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, formanns iðnn., þá skrifuðum við nokkur undir nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari er fyrst og fremst tengdur sambandinu milli Staðlaráðs og Iðntæknistofnunar sem formaður nefndarinnar drap reyndar á. Við teljum að það sé mjög mikilvægt og hefði reyndar verið betra að taka á þessum málum nú, þ.e. tengslunum þarna á milli. Eins og fram kemur í umsögninni frá Iðntæknistofnun, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, þá telur Iðntæknistofnun ekki nægilega vel tekið á þessum málum. Með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Iðntæknistofnunar er ekki ljóst hvert stefnir með staðlastarfsemi stofnunarinnar samkvæmt núverandi frv. Á stofnuninni starfa í dag sjö manns að stöðlun og tengdri starfsemi. Ef stofnunin á að halda þessari starfsemi áfram er æskilegt að kveðið sé skýrar á um þátt hennar og ábyrgð á þessu sviði, annars getur stofnunin litið þannig á að þetta sé utan við hennar verksvið. Stjórn stofnunarinnar vill ítreka að staðlastarfið er mjög mikilvægur þáttur í þróun framleiðslu og almennra viðskiptahátta í framtíðinni. Því vill hún að fyrir liggi hvar ábyrgð og frumkvæði eigi að vera í þessum efnum.``
    Eins og hv. formaður iðnn. sagði áðan telur nefndin að Staðlaráð Íslands skuli notfæra sér þjónustu staðladeildar Iðntæknistofnunar og þess vegna gerir nefndin ekki tillögu að svo stöddu um að binda þetta sérstaklega í lög. Eins og ég sagði áðan hefði verið æskilegra að taka á þessu í heild. En þar sem mér og reyndar öðrum í iðnn. finnst mjög mikilvægt að styrkja lagagrundvöll um staðla og stöðlun hér á landi teljum við eðlilegt að styðja þetta frv. nú. Við munum auðvitað styðja það eins og fram kemur í nál.
    Þetta er ekki fyrsta frv. um staðla sem við fjöllum um í iðnn. Ég hef löngum barist fyrir því að frv. um staðla verði lögfest hér á landi. Það hefur strandað á ýmsum málum, þá fyrst og fremst starfsmannamálum, t.d. á síðasta þingi. Nú er búið að finna sæmilega lausn á þessum málum og vonast ég til þess að þetta frv. geti orðið að lögum fljótlega þar sem, eins og ég sagði áðan, það er mjög nauðsynlegt og mikilvægt að styrkja lagagrundvöll um staðla og stöðlun hér á landi.