Gjald fyrir greiðsluáskorun Húsnæðisstofnunar ríkisins

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 10:43:51 (2680)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Nei, ráðherra var ekki spurður um hvernig staðið skyldi að þessari innheimtu. Húsnæðisstofnun taldi það vera í sínum verkahring að ákveða það. Hv. fyrirspyrjandi lætur að því liggja að hér sé um tekjustofn fyrir stofnun að ræða og að hér sé einhver gróðalind á ferðinni. Hér er einungis um það að ræða að tekið er gjald til að standa undir greiðslum vegna vanskilanna. Og þar sem hv. þm. hélt því fram fyrr í þessari umræðu að hér sé um harðari sektir að ræða heldur en ef um væri að ræða skuldir í bönkum, þá vil ég leyfa mér að efa það. Þessar greiðsluáskoranir eru sendar þremur mánuðum eftir að skuldin fellur í gjalddaga og ég er hrædd um það að í bönkunum sé gripið fyrr til aðgerða. Ég hef einmitt látið taka saman fyrir mig mismun á þessum kostnaði annars vegar vegna vanskila hjá Húsnæðisstofnun og hins vegar vegna vanskila í bönkum sem þá er greidd samkvæmt gjaldskrá Lögmannafélagsins. Það kemur í ljós að ef við tökum t.d. 100 þús kr. sem eru í vanskilum og um er að ræða tvö lán, þá er kostnaður 11.200 kr. hjá Húsnæðisstofnun en 21 þúsund ef um er að ræða innheimtu samkvæmt gjaldskrá Lögmannafélagsins. Ég held því að það sé nú of mikið að fullyrða að það séu harðari sektir ef um er að ræða vanskil hjá Húsnæðisstofnun en hjá bönkum.