Mannréttindi í Eystrasaltsríkjunum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 10:50:37 (2686)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Íslendingar gengu í fararbroddi fyrir öðrum þjóðum í stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna og var sá stuðningur tvímælalaust mikilsverður. Á vettvangi Norðurlandaráðs var fylgst vel með málefnum þessara þriggja þjóða við botn Eystrasaltsins þó að skoðanir væru nokkuð skiptar um atburðarás aðgerða. Þegar þessum þjóðum hafði tekist að losa sig undan yfirstjórn fyrrum Sovétríkjanna ríkti einhugur um að styðja þau í hvívetna, jafnvel var talað um aðild þeirra að Norðurlandasamstarfi. Fulltrúum var boðið til þinga Norðurlandaráðs og sendiráð opnuð í þessum löndum. Allt var þetta gott og rétt þó að segja megi að nokkurs offars hafi gætt á stundum. En enginn deildi um rétt þessara þjóða til sjálfsstjórnar.
    Ljóst er að mörg vandamál eru til staðar í þessum löndum, ekki síst vegna flutninga fólks af rússnesku þjóðerni til þeirra í lok heimsstyrjaldarinnar. Sú sambúð hefur verið öllum erfið eins og ævinlega er þegar sigurvegarar styrjalda skipta með sér löndum og þjóðum. Og nú eru liðin nær 50 ár svo væntanlega gera allir kröfu til að búa áfram þar sem þeir hafa alið aldur sinn.
    Nú hafa borist fréttir um óbilgjarna meðferð þessara innflytjenda sem hvorki kusu sjálfir að flytjast til þessara landa endur fyrir löngu, né geta farið aftur. Brottflutningur herja er annað vandamál en hermenn og fjölskyldur þeirra hafa búið í löndunum í áratugi og eru fjölmargir þeirra komnir á eftirlaun og hafa ekki annað að hverfa.
    Mál þessi eru vitanlega bæði efnahagsleg og tilfinningaleg vandamál sem auðvelt er að skilja, en ljóst er að alvarleg vandkvæði eru á borgaralegum réttindum þessa fólks eftir að ríkin urðu sjálfstæð. Eflaust er freistandi að svara því til að borgaraleg réttindi þeirra sem lönd þessi byggðu fyrir stríð hafi verið virt að vettugi en það leysir ekki vandann 50 árum seinna.
    Sendinefnd Alþingis, sem nýlega sat þing Sameinuðu þjóðanna, efndi til fundar með fulltrúum þessara landa og sátu hann fulltrúi frá Eistlandi og Lettlandi. Skýrðu þeir stöðu mála í löndum sínum en óneitanlega kom fram mikill munur á afstöðu þessara einstaklinga til borgaralegra réttinda. Var ljóst að Eistlendingar eru lengra komnir í mótun afstöðu til þessara óvelkomnu samborgara en Lettar. Við lögðum á það áherslu að Íslendingar hlytu að vænta þess að friðsamleg lausn fyndist sem samboðin væri frjálsu samfélagi og bentum á uggvænlegt ástand í öðrum löndum Evrópu.
    Ástæðan fyrir fsp. minni er sú að það leynist engum að svo erfiðar tilfinningar eru þarna á ferðinni að illa gæti farið. Norðurlandaþjóðir hafa með beinum afskiptum og aðstoð við þessi ríki tekið á sig nokkra ábyrgð á framvindu mála í ríkjunum og ég tel það skyldu okkar allra að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að hörmungar á borð við það sem áður hefur gerst endurtaki sig.
    Fsp. sem er til samstarfsráðherra norrænna málefna um mannréttindi í Eystrasaltsríkjunum er á þskj. 195 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Hefur norræna ráðherranefndin vakið athygli yfirvalda í Eystrasaltsríkjunum á ólíkum viðhorfum Norðurlandaþjóða annars vegar og í Eystrasaltsríkjunum hins vegar til borgaralegra réttinda íbúanna, t.d. réttinda til þátttöku í almennum kosningum?
    2. Telur ráðherranefndin ástæðu til að kynna sér þessi mál með tilliti til fyrirhugaðrar samvinnu Norðurlandaþjóða og Eystrasaltsríkjanna og verulegra fjárframlaga sem Norðurlandaþjóðir hyggjast leggja fram til að styrkja tvíhliða samvinnu?``