Mannréttindi í Eystrasaltsríkjunum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 10:54:30 (2687)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Norræna ráðherranefndin veitir reglulega styrki til ýmissa samstarfsverkefna sem hafa það að markmiði að efla og þróa lýðræðiskerfi í Eystrasaltsríkjunum og Austur-Evrópu enda er hér um að ræða forgangsmál í verkefnaáætlun ráðherranefndarinnar. Á árinu 1991 var m.a. veittur styrkur til námsstefnu vísindamanna sem bar heitið ,,Democracy in Theory and Practice``. Þessi ráðstefna var í umsjá norrænu nefndarinnar um þjóðfélagsrannsóknir. Enn fremur hlaut mannréttindanefnd sem kennd er við Helsingfors styrk til að halda námsstefnu um mannréttindi með þátttöku fulltrúa frá norrænum ríkjum og Eystrasaltsríkjum.
    Norræna blaðamannamiðstöðin í Árósum hefur fengið fjárstuðning frá ráðherranefndinni til að halda námskeið fyrir blaðamenn í öllum Eystrasaltsríkjum til þess að styðja þar lýðræðisviðleitni með aðstoð fjölmiðla.
    Í verkefnaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar fyrir Eystrasaltsríkin og Austur-Evrópu sem var endurskoðuð 1992 var hálfri milljón danskra króna ráðstafað sérstaklega til samvinnu þjóðþinga og gagnkvæmra þingmannaheimsókna milli Eystrasaltsríkja og Norðurlanda, m.a. til þess að miðla norrænni reynslu af lýðræðisstarfi til kjörinna fulltrúa í þessum ríkjum.
    Í því styrkjakerfi sem nýverið hefur verið eflt og gefur embættismönnum í Eystrasaltslöndum kost á að starfa um skeið á Norðurlöndunum hefur þörfin á samvinnu um ýmiss konar lögfræðileg efni þótt vera einna brýnust. Ekki síst að því er varðar alþjóðarétt.
    Svarið við þessari spurningu er því að með beinum hætti hefur norræna ráðherranefndin ekki formlega vakið athygli yfirvalda, enda væri það kannski túlkað sem óeðlileg afskipti af innanlandsmálum þeirra, þó að í samtölum við einstaka fulltrúa þessara ríkja hafi þessi mál að sjálfsögðu borið á góma.
    Varðandi seinni lið fsp. eru raunar ekki efni til þess af hálfu ráðherranefndarinnar að leggja mat á það hvernig staðið er að því tvíhliðasamstarfi sem tekist hefur og er í gangi milli einstakra Norðurlanda og einstakra Eystrasaltsríkja eða allra sameiginlega þannig að um það er af hálfu ráðherranefndarinnar ekki meira að segja.