Mannréttindi í Eystrasaltsríkjunum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:01:45 (2691)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu mál sem er flókið og vandmeðfarið og erfitt að gera grein fyrir í mjög stuttu máli en ég vil þó láta það koma fram vegna þess að hv. fyrirspyrjandi gat um fund sem þingmenn á þingi Sameinuðu þjóðanna áttu með fulltrúum Eistlendinga og Letta, að í þeim gögnum sem þar voru lögð fram, sem voru ítarleg og voru lögð fram af hálfu Eistlendinga, þá kom ekki fram að þar væri um að ræða neina óbilgjarna meðferð á innflytjendum eða mönnum sem ekki nytu fullra ríkisborgararéttinda í Eistlandi, heldur var þar mjög skilmerkilega skýrt út hvernig meiningin væri samkvæmt þargildandi lögum að ganga í það að veita mönnum ríkisborgararéttindi og hvað menn þyrftu að gera og á hvaða grundvelli það sem gera þyrfti til að öðlast ríkisborgararéttindin.
    Það var einnig getið um það áðan að ósamræmi væri í afstöðu Letta annars vegar og Eistlendinga hins vegar til þessa máls. Það er kannski fullmikið sagt. Það sem rétt er í þessu máli er það að Eistlendingar hafa þegar gengist fyrir lagasetningu í þessum efnum en löggjöf er í undirbúningi af hálfu Letta og mun hún fara, að því er þeir tjáðu okkur, inn á sömu brautir þó þar verði e.t.v. um annan frest að ræða heldur en gildir í lögum hjá Eistlendingum.