Mótmæli gegn plútonflutningum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:07:24 (2694)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Þann 2. maí 1988 fór fram í sameinuð þingi umræða utan dagskrár um plútonflutninga frá Evrópu til Japans, loftleiðis. Þar sameinaðist Alþingi í mótmælum við fyrirætlanir um þessa ráðgerðu flutninga, loftleiðina frá Frakklandi eða Bretlandi til Japans á árunum upp úr 1990 og utanrmn. Alþingis ályktaði um málið. Það komu mótmæli víðar að á þeim tíma. Í framhaldi af þessu lögðu japönsk stjórnvöld niður áform um að flytja endurunnið plúton loftleiðis en fór að beina sjónum að sjóflutningum með þennan varning, þetta hágeislavirka efni. Nú er svo langt komið að þessir flutningar eru hafnir sjóleiðina frá Frakklandi til Japans. Þann 7. nóv. sl. lagði úr höfn 3.800 tonna skip með 1,7 tonn af plútoni innan borðs út á Atlantshaf og er nú statt einhvers staðar vestur af Angóla og líkur á því að það leggi í hafið suður af Góðrarvonarhöfða í Suður-Afríku núna um næstu helgi. Leynd hvílir yfir ferð og ferðaleið þessa skips og mótmæli hafa verið borin fram víða úr löndum sem næst liggja þessari sjóleið og alþjóðasamtök, bæði á vegum Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðasjóferðastofnunarinnar, IMO, og fleiri aðila hafa lýst þungum áhyggjum vegna þessa máls. Kröfur hafa komið fram um það að stöðva þennan flutning og bíða ráðgerðs fundar IMO sem halda á fyrstu vikuna í desember, ég held 7.--10. des., þar sem á að fjalla um nýjar kröfur til öryggis vegna flutninga á geislavirkum efnum sjóðleiðina og öðrum hættulegum efnum. Ég hef á þskj. 311 borið fram fsp. í tveimur liðum til utanrrh. og umhvrh. vegna þessa máls.
    Í fyrsta lagi til hæstv. utanrrh.: ,,Hefur ríkisstjórnin mótmælt á alþjóðavettvangi flutningum sem nú standa yfir á hágeislavirku plútoni sjóleiðis frá Frakklandi til Japans?``
    Í öðru lagi til hæstv. umhvrh.: ,,Mun umhvrh. beita sér fyrir samræmdum viðbrögðum Norðurlanda vegna þessara flutninga?``
    Ég vil geta þess að á þingi Norðurlandaráðs þann 11. nóv. sl. skoraði ég á utanríkisráðherra Norðurlanda í umræðum um utanríkismál að beita sér í þessu máli.