Fyrirboðar gjaldþrota

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:16:44 (2698)

     Fyrirspyrjandi (Hermann Níelsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að bera fram eftirfarandi fsp. til dómsmrh.:
  ,,1. Hefur ráðherra beitt sér fyrir auknu eftirliti með fyrirboðum gjaldþrota í fyrirtækjarekstri með vísan til 2. mgr. 64. gr. gjaldþrotalaganna og 113. gr. hlutafélagalaga?
    2. Mun ráðherra láta starfsmenn ráðuneytis síns vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum áður en í óefni er komið og stórtöp margra aðila hafa orðið?``
    Með leyfi forseta, ætla ég að vitna í gjaldþrotalögin. Þar segir í 64. gr., 2. mgr.:
    ,,Skuldara, sem er bókhaldsskyldur, er skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar svo er orðið ástatt fyrir honum sem segir í 1. mgr.``
    En í 1. mgr. segir:
    ,,Skuldari getur krafist að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.``
    Einnig vil ég vitna í hlutafjárlögin, með leyfi forseta, en þar segir í 113. gr.:
    ,,Félagsstjórn er skylt að afhenda bú félags til gjaldþrotaskipta samkvæmt ákvæðum 14. gr. gjaldþrotalaga.``
    Það er greinilegt að lögin kveða á um að eigendur fyrirtækja og stjórnum hlutafélaga er skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar eiginfjárstaða er svo slæm að ekki er hægt lengur að standa í fullum skilum við lánardrottna þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga.
    Sú raunasaga þekkist vel á Íslandi að fyrirtæki verða stundum mjög skuldsett. Ef ekki er gripið í taumana fljótt með aðhaldi og sparnaði í rekstri halda skuldirnar áfram að aukast og fyrirtækið sekkur dýpra í skuldafenið. Reynt er að bjarga fyrir næsta horn með veltu og auknum lánum á meðan lánstraust varir eða undirbjóða sífellt. Fyrirtækið hættir að geta greitt þjónustuaðilum fyrir veitta þjónustu og hættir að geta greitt ýmis gjöld, t.d. virðisaukaskatt og afborganir af dýrum lánum ef það getur þá greitt nokkurn skapaðan hlut. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Á þessu ferli festast margir lánardrottnar og viðskiptaaðilar í skuldanetinu, margir til að byrja með án þess að gera sér grein fyrir því og standa meira að segja í góðri trú um að eðlileg viðskipti eigi sér stað. Þegar yfir lýkur dregur hið gjaldþrota fyrirtæki marga aðila með sér í fallinu án þess að þeir geti rönd við reist eða átt nokkurt tilkall í þrotabúið því opinberir sjóðir og bankar hafa ætíð forgang fram yfir einkafyrirtækin. Ég hef sjálfur í mínu þjónustufyrirtæki orðið fyrir tapi vegna gjaldþrots og nauðasamninga annarra fyrirtækja sem ég hef átt viðskipti við.
    Því vil ég spyrja dómsmrh.:
    Er hægt að fylgjast með fyrirboðum gjaldþrota, t.d. fyrirtækjum sem lenda í vanskilum með virðisaukaskatt og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða eða með ráðgjöf og leiðbeiningum um aðhald í rekstrinum? (Forseti hringir.) --- Virðulegi forseti. Ég óska eftir að fá að ljúka þessum örfáu línum sem eftir eru. --- Er hægt að vara við afleiðingum ef hætta á gjaldþroti blasir við og reyna þannig að koma í veg fyrir að til þess komi og reyna með einhverjum ráðum að skapa þann móral sem stuðlað gæti að fækkun gjaldþrota? Við þekkjum einnig að framkvæmdastjórar, stjórnarformenn og prókúruhafar fyrirtækja, sem tekin hafa verið til gjaldþrotaskipta, geta í sumum tilvikum sinnt sömu embættum í nýju fyrirtæki í svipuðum rekstri nokkrum dögum síðar. Er það eðlilegt? Er ástæða til að setja lög um að einhver tími verði að líða áður en sami aðili geti stofnað nýtt fyrirtæki á rústum hins gamla gjaldþrotafyrirtækis? Ég tel fulla ástæðu fyrir okkur Íslendinga að skoða þessi mál gaumgæfilega.