Fyrirboðar gjaldþrota

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:21:11 (2699)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda eru ákvæði um það í gjaldþrotaskiptalögum að bókhaldsskyldir einstaklingar verða að gefa sig upp til gjaldþrotaskipta ef þeir eiga ekki fyrir skuldum og ekki er fyrirsjáanlegt að greiðsluerfiðleikum ljúki innan tiltekins tíma. Sambærileg ákvæði eru í hlutafélagalögum að því er varðar stjórnir

hlutafélaga. Þær verða, samkvæmt nánari skilgreiningu í lögunum, að segja félögin til gjaldþrota ef þær aðstæður eru fyrir hendi. Hér er um að ræða ákveðna lagaskyldu sem hvílir á þeim aðilum sem eiga hlut að máli. Þeir bera ábyrgð á því að uppfylla þessi lagaákvæði en ekki stjórnvöld. Það kemur hins vegar fyrst til kasta stjórnvalda í þessu efni ef þessir aðilar hafa ekki fullnægt þeim lagaskilyrðum sem þarna er vitnað til. Á herðum dómsmálayfirvalda hvílir engin skylda til eftirlits og staðreyndin er sú að aðstaðan er ekki einasta sú heldur væri það beinlínis óheimilt að dómsmrn. færi að taka upp eftirlit með fjárhag og bókhaldi einstakra fyrirtækja. Fyrir því eru engar heimildir. Ef menn ætluðu að leita slíkra lagaheimilda væru menn á einni nóttu að breyta Íslandi í eitthvert mesta lögregluríki sögunnar. Að því leyti er þessi fsp. algerlega út í hött.
    Hitt er annað mál að það álitaefni sem hv. 5. þm. Austurl. gerði að umræðuefni í framhaldi af fsp. sinni er vissulega þannig vaxið að það er full ástæða til að gefa því gaum og kemur að mínu mati fyllilega til athugunar að kanna hvort ástæða er til þess að bregðast með einum eða öðrum hætti við á sviði viðskiptalöggjafar. Ef viðskrn. hefði hug á að taka þau mál upp til skoðunar væri dómsmrn. vissulega reiðubúið til að leggja þeirri vinnu lið að því er varðar viðurlagahlið slíkra almennra viðskiptareglna sem hugsanlega yrðu settar af þessu tilefni.