Fyrirboðar gjaldþrota

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:25:06 (2701)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er algerlega út í hött að dómsmálayfirvöld komi af stað allsherjareftirliti með fjárhag og bókhaldi allra fyrirtækja í landinu til þess að gefa um það leiðbeiningar ef fjárhagurinn er að fara til verri vegar að mati dómálayfirvalda. Það er ekki hlutverk dómsmálayfirvalda og lagaákvæði sem sett yrðu um það efni og sem betur fer eru ekki fyrir hendi í dag myndu breyta Íslandi í lögregluríki. Ég tók það hins vegar fram í mínu svari í framhaldi af almennri hugleiðingu hv. þm. að ég teldi mjög eðlilegt að yfirvöld viðskiptamála legðu hugsun í þetta viðfangsefni sem er alvarlegt. Ég lít svo á og hef átt viðtal við fjölmarga aðila í viðskiptum sem hafa sagt mjög alvarlegar sögur af því hvernig keðjuverkanir gjaldþrota geta haft áhrif á fyrirtæki og einstaklinga. Þess vegna tel ég fullkomlega eðlilegt að viðskiptayfirvöld huguðu að þessu og lýsi því yfir fyrir hönd dómsmrn. að það er reiðubúið að leggja slíkri vinnu lið með viðskiptayfirvöldum. En það getur aldrei verið með sama hætti og talað er um í fyrirspurnum sem liggja fyrir frá hv. þm. á prentuðum þingskjölum, þ.e. með eftirliti dómsmálayfirvalda eða lögreglunnar með fjárhag allra fyrirtækja í landinu og leiðbeiningu dómsmálayfirvalda um fjármálasýslu fyrirtækja. Það getur aldrei gerst með þeim hætti.