Sjávarútvegssamningur Íslands og EB

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:36:28 (2706)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er hefur mikill ágreiningur verið milli íslenskra stjórnvalda og Efnahagsbandalagsins um lykilákvæði í þeim sjávarútvegssamningi sem þarf að gera milli Íslands og Evrópubandalagsins ef Evrópubandalagið staðfestir samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Þessi ágreiningur milli Íslands og Evrópubandalagsins hefur verið svo mikill að aðilarnir hafa ekki treyst sér í hálft ár til að halda formlegan viðræðufund. Síðasti viðræðufundur mun hafa verið í júnímánuði sl. Þá var ætlunin að gera tilraun til þess að ljúka samningunum í júlímánuði en vegna verulegs ágreinings milli Íslands og Evrópubandalagsins var hætt við það og síðan hafa aðilar ekki treyst sér til að halda formlegan viðræðufund samninganefndanna til þess að ljúka samningsgerðinni.
    Það hefur komið fram að það er einkum eitt atriði sem veldur þessum mikla ágreiningi. Það er líka grundvallaratriði. Þetta lykilatriði snýst um það hvort þær veiðiheimildir sem samið var um á sínum tíma í Óportó að ættu að tengjast samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, að Evrópubandalagið fengi að veiða 3 þús. tonn af karfa á móti því að Evrópubandalagið léti Íslendinga fá rétt sinn frá Grænlendingum til að veiða 30 þús. tonn af loðnu og hvort þessar veiðiheimildir væru með þeim hætti að tryggt væri að hér væru jöfn skipti. Nú ætla ég ekki að ræða það ágreiningsmál hvort hleypa eigi erlendum flota inn í íslensku landhelgina. Um það getum við rætt síðar. Spurningin nú er hins vegar hvort sú viðræðunefnd sem hittir samningamenn Evrópubandalagsins á morgun hefur fengið heimild til þess að falla frá kröfu Íslendinga að einu eða öllu leyti.
    Kröfur Íslendinga voru og hafa verið frá því að viðræður hófust að þegar gerð væru upp 3 þús. tonn af karfa á móti 30 þús. tonnum af loðnu, þá yrði tryggt að það yrði fiskur á móti fiski. Hvers vegna er það vandamál? Jú, vegna þess að það er öruggt verk og létt fyrir Evrópubandalagið að ná karfanum vegna eðlis karfastofnsins. Loðnan er aftur á móti duttlungafullur fiskur og það hefur enginn tryggingu fyrir því að Íslendingar nái sínum hlut. Evrópubandalagið hefur sagt: Þetta er samningur um veiðiheimildir á móti veiðiheimildum, eða með öðrum orðum: Þetta er samningur um ávísanir á veiði en ekki tryggingar fyrir veiði. Það hefur verið haft á orði að fulltrúar Evrópubandalagsins segi að ef Íslendingar nái ekki loðnunni geti Evrópubandalagið ekki gert að því þótt þeir fari heim með öngulinn í rassinum.
    Á fundum sem fulltrúar sjávarútvegsins hafa mætt á hjá utanrmn. fyrr á þessu ári og í yfirlýsingum fulltrúa sjávarútvegsins opinberlega hefur það komið fram að það hefur verið krafa íslenska sjávarútvegsins að þetta væri örugglega fiskur á móti fiski, með öðrum orðum að samningurinn yrði á þann hátt að tryggt væri að Íslendingar veiddu loðnuna fyrst og síðan gæti Evrópubandalagið veitt karfann. Þegar upp væri staðið eftir nokkur ár væri það því öruggt að á móti 3 þús. tonnum af karfa hefðu Íslendingar sannanlega veitt 30 þús. tonn af loðnu. Samningurinn yrði ekki þannig að Evrópubandalagið gæti örugglega veitt á hverju ári sinn hlut en síðan væri það háð duttlungum örlaganna hvort Íslendingar gætu veitt loðnuna.
    Ég hef þess vegna, virðulegi forseti, óskað eftir þessari umræðu hér af því að á morgun fer fram viðræðufundur, samningafundur, milli Íslands og Evrópubandalagsins um þennan samning, sá fyrsti í sex mánuði, þar sem ætlunin er að ljúka þessum viðræðum. Ég hef óskað eftir því að spyrja hæstv. sjútvrh.: Hefur hann veitt fulltrúum sínum í samninganefndinni umboð til þess að samþykkja þá kröfu Evrópubandalagsins að þetta verði bara veiðiheimild á móti veiðiheimild eða verður haldið fast við hið fyrra samningaumboð að þetta verði fiskur á móti fiski? Ég hef einnig óskað eftir því að hæstv. utanrrh. sé viðstaddur þessa umræðu til þess að geta tekið þátt í henni þótt formsins vegna verði ég að beina fyrirspurn minni eingöngu til sjútvrh.