Sjávarútvegssamningur Íslands og EB

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 11:49:08 (2710)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hæstv. sjútvrh. upplýsti það ekki í hverju umboð samningamanna væri fólgið og mér fannst hann segja óþarflega mikið með þeirri þögn. Það er auðvitað grundvallaratriði að það sé fiskur á móti fiski. Annars er loðnan vonarpeningur, annars er loðnan e.t.v. bara pappírsfiskur. Þá erum við að veita aðgang að fiskimiðunum gegn tollaívilnunum sem er brot á þeirri stefnu sem við höfum fylgt á undanförnum árum og þjóðarsamstaða hefur verið um.
    Hæstv. sjútvrh. sagði að þegar hefði verið samið um önnur atriði. Ég rifja það upp að okkur í utanrmn. hefur verið sagt hvað eftir annað að ekkert atriði væri fast fyrr en öll atriði væru niðurnegld og samningurinn fullgerður. Fréttir frá Brussel eru ekki samhljóða í öllum atriðum því sem talsmenn ríkisstjórnarinnar halda fram hér. Mér finnst þetta vera glannalegir samningar.
    Hæstv. sjútvrh. sagði að við gripum ekki fram fyrir hendur á samningamönnunum. Ég bendi á það að sjútvrh. getur gripið fram fyrir hendur á þeim ef hann vill og ríkisstjórnin getur það einnig. Hvers lags vinnubrögð væru það að láta þá hafa fullt umboð til þess að gera hvað sem þeir vildu? Það er einfalt fyrir þá að ljúka þessum samningum nú fyrir hádegið með því að segja bara já og amen við öllum kröfum Evrópubandalagsins en það er náttúrlega ekki það sem við teljum viðunandi niðurstöðu.