Sjávarútvegssamningur Íslands og EB

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 12:05:04 (2716)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég mótmæli því alveg ef hæstv. sjútvrh. hefur ekki málfrelsi hér til að bera af sér sakir eða koma með skýrari yfirlýsingar en hann gerði áðan. Ég stend fyrst og fremst upp vegna þess að hæstv. utanrrh. fór að leggja einu sinni enn til grundvallar málflutningi sínum drög sem embættismenn gerðu árið 1981 um rammasamning, drög að rammasamningi milli Íslands og Evrópubandalagsins. Þessi drög voru óaðgengileg þá að mati stjórnvalda. Þeim var stungið ofan í skúffu. Nú tekur núverandi ráðherra þessi drög upp og leggur þau undir sem eitthvert grundvallarplagg. Þeim var hafnað þá vegna þess að þau voru óaðgengileg á þeim tíma. Þau eru enn þá óaðgengilegri og fráleitari núna meira að segja af þeirri ástæðu að Grænland er ekki lengur aðili að Evróplubandalaginu fyrir utan það að í þeim eru auðmýkjand ákvæði sem ekki er eðlilegt fyrir okkur Íslendinga að fallast á.
    Út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. sem minntist á athyglisverða hluti um útfærslu landhelginnar og möguleika þá sem Ísland á í því sambandi vil ég minna á það og spyrja þingheim hvernig mönnum litist á að sækja þann rétt sem við eigum eftir að við værum orðnir aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Með aðild að Evrópsku efnahagssvæði erum við náttúrlega að slá striki yfir þann möguleika að færa landhelgina frekar út.