Sjávarútvegssamningur Íslands og EB

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 12:09:56 (2718)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Tveir hv. þm. hafa haft í frammi dylgjur þar að lútandi að niðurstöður þeirra samninga sem nú eiga sér stað í Brussel hafi verið tengdar umræðum og ákvörðunum og samkomulagi stjórnarflokkanna í milli um aðgerðir í efnahagsmálum. Ég vísa þessu á bug. Fyrir þessu er ekki fótur. Í þeim umræðum innan ríkisstjórnar var að sjálfsögðu aldrei minnst á þessa samninga enda kom sú umfjöllun þeim ekki við og hefði verið fullkomlega óeðlilegt að blanda því saman og fyrir þessu er því enginn fótur.
    Vegna þess sem hér hefur komið fram að við þyrftum að halda áfram að vinna að réttindum okkar í hafréttarmálum í samræmi við hafréttarsáttmálann er þess að geta að þessir samningar um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum breyta í engu skýlausum rétti okkar í þeim efnum. Honum höldum við að sjálfsögðu að fullu óskertum og þessir samningar breyta þar engu um.
    Varðandi samningsumboðið hygg ég nú að þrátt fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram sé öllum ljóst, enda þekkja þingmenn það vel til samninga, að þeir sem í samningum standa frá báðum aðilum þurfi að hafa nokkurt sigrúm til að ná niðurstöðu. Við höfum átt í þessum viðræðum. Báðir aðilar hafa lagt fram texta af sinni hálfu út frá þeim samningsdrögum sem þeir hvor um sig hafa lagt fram. Ef Evrópubandalagið hefði gefið samningsmönnum sínum það umboð að þeir mættu í engu hvika frá þeim textum sem lagðir hafa verið fram af þeirra hálfu og ekki fallast á neinar viðbætur og við hefðum gert slíkt hið

sama, þá væru engir samningar. Þá þyrfti engan samningafund af því að það væri ákvörðun um að semja ekki og engin slík ákvörðun yrði tekin. Þetta veit ég að þingmenn skilja. Við freistum þess að ganga frá þessum samningum á morgun. Ekki er hægt að fullyrða að svo verði. Ef annar hvor aðilinn fellur frá sínum sjónarmiðum er það sjálfsagt alveg rétt mat hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að hægt væri að ljúka þessum samningum fyrir kvöldmat. En ég á ekki von á því að Evrópubandalagið geri það og við munum halda á málum okkar þannig alveg fram til síðustu stundar að við tryggjum íslenska hagsmuni í þessum samningum.