Atvinnuleysistryggingar

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 12:13:00 (2719)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. á þskj. 283 er flutt til þess að leita staðfestingar Alþingis á samkomulagi sem gert var í haust milli stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar. En þann 10. október 1992 var undirritað samkomulag þessara aðila um aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi á árinu 1993. Samkomulagið, sem undirritað var, hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Samband ísl. sveitarfélaga mælir með því við sveitarfélögin að þau leggi fram á árinu 1993 fjárframlag, 500 millj. kr., í Atvinnuleysistryggingasjóð. Framlagið verður miðað við íbúafjölda sveitarfélaga.
    Vegna þessa fjárframlaga sveitarfélaganna mun ríkisstjórnin gera ráðstafanir til þess að á árinu 1993 verði Atvinnuleysistryggingasjóði heimilað að ráðstafa því fjármagni, þó þannig að dragi samsvarandi úr atvinnuleysisbótum og að uppfylltum reglum sem settar verða um úthlutun úr sjóðnum. Þessum greiðslum skal einungis varið til sérstakra verkefna til eflingar atvinnulífs á vegum sveitarfélaga. Samband ísl. sveitarfélaga skal fá aðild að ákvörðunum um ráðstöfun þessa fjármagns.
    Ofangreindar ráðstafanir gilda eingöngu á árinu 1993 og mun ríkisstjórnin beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum.
    Aðilar eru sammála um að framvegis verði tillögur um meiri háttar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga, sem kveðið er á um í lögum eða gert hefur verið sérstakt samkomulag um, teknar til umfjöllunar í sérstakri samráðsnefnd þeirra. Skulu ákvæði um slíka samráðsnefnd sett í slíkan nýjan samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga, er öðlast gildi í ársbyrjun 1993, en núverandi samstarfssáttmáli aðila rennur út um næstu áramót.``
    Svo hljóðaði það samkomulag sem undirritað var þann 10. okt. 1992. Fyrri hluti þessa samkomulags lýtur að ráðstöfunum til að draga úr atvinnuleysi á árinu 1993 fyrir milligöngu Atvinnuleysistryggingasjóðs en síðari hluti samkomulagsins lýtur að fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og breytingu á reglum um samráðsnefnd í samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga og fellur það að sjálfsögðu undir félmrh., ráðherra sveitarstjórnarmála.
    Til þess að fullnægja fyrra atriði yfirlýsingarinnar þarf að leita eftir heimild Alþingis til breytinga á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð og er frv. flutt í því skyni. Til þess að við samkomulagið verði staðið verður tvennt að koma til. Í fyrsta lagi þarf að breyta lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð þannig að sjóðnum sé heimilt að taka við því fjármagni sem hér um ræðir og ákveða í lögum með hvaða hætti það skuli lagt á sveitarfélögin. Í öðru lagi þarf einnig að gera þær breytingar á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð að honum verði heimilað að greiða þessa fjármuni út í samræmi við það samkomulag sem gert var við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Hér er lagt til að þetta verði gert með þeim hætti að í lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð, nr. 96/1990, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem verði ákvæði til bráðabirgða IV, svohljóðandi:
    ,,Á árinu 1993 skulu sveitarfélög greiða 500 millj. kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiði 1.950 kr. fyrir hvern íbúa en sveitarfélög með færri en 300 íbúa greiði 1.170 kr. á hvern íbúa. Miða skal við íbúafjölda 1. desember 1992. Um innheimtu gjaldsins skal fjmrh. setja reglugerð.``
    Ég læt staðar numið með tilvitnun í greinina og vil láta fylgja örfáar skýringar.
    1. Samkomulag er á milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga að með þessum hætti skuli gjaldið lagt á, þ.e. samkomulag á milli stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar um fjárhæðir sem eru nefndar og samkomulag um að það leiði til niðurstöðu sem er um 500 millj. kr. samtals.
    2. Gert er ráð fyrir því að í reglugerð um innheimtu gjaldsins, sem fjmrh. á að setja, sé kveðið á um að sveitarfélögin greiði þessar greiðslur til ríkissjóðs einu sinni í mánuði samkvæmt útsendum reikningum þar um. Hefst þá aftur tilvitnun í texta frv. Þar stendur í seinni mgr. 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 47. gr. skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt á árinu 1993 að gera tillögur um ráðstöfun á þessu fjármagni til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífs, enda dragi samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á hverjum stað. Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem heilbr.- og trmrh. setur að fenginni umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga. Tveir fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga skulu taka sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar styrkumsóknir eru teknar til umfjöllunar og afgreiðslu. Tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingar skulu staðfestar af heilbr.- og trmrh.`` Lýkur þar tilvitnun í seinni málslið 1. gr. þessa frv. Örfáar skýringar:
    1. Gert er ráð fyrir því í gildandi lögum, í 47. gr. þeirra laga, að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sé heimilt að verja fé úr sjóðum til að styðja sveitarfélög við framkvæmdir sem líklegar til þess að draga úr atvinnuleysi og létta byrðum af Atvinnuleysistryggingasjóði. Þau mörk eru hins vegar sett stjórn

Atvinnuleysistryggingasjóðs að henni er aldrei heimilt að greiða í þessu skyni meira en sem nemur vaxtatekjum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þar sem hér er um miklu hærri fjárhæðir að ræða en nemur vaxtatekjum Atvinnuleysistryggingasjóðs og auk þess fjármunir sem sérstaklega eru fengnir með framlögum sveitarfélaga, er nauðsynlegt að heimila að þrátt fyrir ákvæði 47. gr. skuli stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að ráðstafa umræddum fjármunum, 500 millj. kr., með þeim hætti sem hér er tekið fram.
    2. Orðalagið á þessari málsgrein eins og þeirri fyrri er gert í samráði við og að fengnu samþykki stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga þannig að það sem þar er sagt til að lýsa framkvæmdinni á málinu er með samþykki stjórnarinnar Þar er gert ráð fyrir því að heilbr.- og trmrh. setji reglur um úthlutun styrkja og þær reglur verði settar í samráði við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og að í reglum þessum verði gert ráð fyrir því að ráðstöfunin á fjármagninu verði einvörðungu til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga. Þau verkefni gætu út af fyrir sig verið unnin af einkaaðilum en það er sveitarfélagið sem er ábyrgt fyrir þeim og sækir um þau. Ekki gert ráð fyrir því heldur samkvæmt textanum að framlag Atvinnuleysistryggingasjóðs til slíkra verkefna geti verið hærra en samsvarar þeim greiðslum atvinnuleysisbóta sem ella hefðu fallið til. Þarna er því verið að ræða um að skapa verkefni fyrir fólk sem er á atvinnuleysisbótum og fellur út af atvinnuleysisbótum með þeim framkvæmdum sem þarna á að styrkja.
    3. Gert er ráð fyrir því að það sem umfram er þær greiðslur sem þannig eru heimilaðar falli þá á viðkomandi sveitarfélag, þ.e. ef um viðbótarlaunagreiðslur er að ræða, umframgreiðslur atvinnuleysisbóta fyrir hvern þann sem af atvinnuleysisskrá fellur eða ef um greiðslur er að ræða vegna efniskaupa eða annarra aðfanga.
    Síðan er ákveðið í málsgreininni --- og er það einnig í samráði við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga --- að tveir fulltrúar þeirra skuli taka sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar styrkumsóknir eru teknar til umfjöllunar og afgreiðslu. Er þá að sjálfsögðu átt við þær styrkumsóknir einar sem lúta að því efni sem hér er fjallað um.
    Loks er gert ráð fyrir því að heilbr.- og trmrh. skuli staðfesta tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingar, ekki þó þannig að hæstv. heilbr.- og tmrh. geti breytt tillögum stjórnarinnar, heldur að hann geti annaðhvort staðfest þær eða hafnað ef það er álit ráðherrans að styrkveitingin sem um er að ræða sé ekki í samræmi við það samkomulag sem gert hefur verið eða sé með einhverjum hætti öðruvísi en lögin sem hér er gerð tillaga um að sett verði, gera ráð fyrir.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál enda er um samkomulagsmál að ræða milli stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar. Ég legg því til að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.