Atvinnuleysistryggingar

63. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 12:36:56 (2721)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. með tillögu um það að frv. það sem hér er mælt fyrir fari til umfjöllunar í heilbr.- og trn. Ég á sæti í þeirri virðulegu nefnd og ég segi fyrir mig að ég er tilbúinn til þess að skoða þetta mál þar með opnum huga og efnislega tek ég undir það sem hér er á ferðinni. Ég er ánægður með þá breytingu sem gerð er tillaga um þó svo hún veki upp margar spurningar hjá mönnum. Þegar mál eins og þessi eru flutt vekja þau upp spurningar, ekki síst um fjárhag sjóðsins. Ég ætla að koma örlítið inn á það síðar í ræðu minni og spyrja hæstv. ráðherra þá nokkurra spurninga.
    Frv. er um samkomulag milli ríkisvalds og sveitarfélaga og í þeim tilgangi samið að gera tilraun til þess að draga úr atvinnuleysi. Í 2. mgr. 1. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 47. gr. skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt á árinu 1993 að gera tillögur um ráðstöfun á þessu fjármagni til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífs, enda dragi samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á hverjum stað.``
    Af þessum lagatexta er ekki alveg skýrt hvað átt er við enda segir: ,,Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur . . .  ``
    Því spyr ég: Þarna er um 500 millj. kr. að ræða. Segjum að Reykjavíkurborg sæki um 200 millj. kr. í sjóðinn til þess að takast á við það atvinnuleysi sem hér er, sem kannski er erfiðara að fást við en á mörgum öðrum stöðum. Fái Reykjavíkurborg þennan styrk, hvað þýðir það fyrir aðra sem verða atvinnulausir og bætast við eftir að slíkur styrkur hefur verið greiddur úr sjóðnum til Reykjavíkurborgar? Þýðir það að atvinnuleysisbætur til þeirra sem bætast við verði skertar? Bara til Reykvíkinga? Þetta eru spurningar sem vakna upp út frá lagatextanum. Nú býst ég fastlega við að þetta sé ekki með þessum hætti, en yrði ánægður með að fá svör hjá hæstv. ráðherra við því hvernig ráðherrann hefur hugsað sér þetta.
    Um leið og þessi einstaka breyting er flutt og menn lesa fjárlagafrv., ég ætla ekki að vitna í það til þess eins að eyða tímanum við þessa umræðu en hv. 9. þm. Reykv. vitnaði í fjárlagafrv. og þar eru ýmis fyrirheit af hálfu ríkisstjórnarinnar um hvað gera skuli við Atvinnuleysistryggingasjóð, spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað líður heildarendurskoðun á lögunum um atvinnuleysistryggingar? Ég veit að þær eru búnar að vera lengi í endurskoðun og breytingar hafa verið gerðar á þeim nefndum sem um málin fjalla.
    Því hefur verið haldið fram af virtum hagfræðingi, Lilju Mósesdóttur, að atvinnuleysi sé jafnvel 40% meira en hefur verið skráð. Nú eru þetta bara tilvitnanir sem ég hef heyrt og ætla ég ekkert að fullyrða í þeim efnum, það er mjög erfitt að áætla þetta. Vafalítið er atvinnuleysið nokkru meira en skráð er vegna þess að hópur atvinnuleysingja er ekki á skrá hjá sjóðnum vegna þess að hann fær ekki greiðslur úr sjóðnum.
    Hugmyndir hafa verið uppi um að fjölga þeim aðilum sem eiga möguleika á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Mér finnst það stangast dálítið á, nema það sé ásetningur að skerða atvinnuleysisbæturnar, þegar menn tala um það annars vegar að fjölga þeim sem eiga að fá greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði en með endurskoðun laganna ætla menn á sama tíma að spara 100 millj. kr., eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Hvernig fer þetta saman?
    Fjárhagur Atvinnuleysistryggingasjóðs er sér kapítuli út af fyrir sig og af því að málið kemur til hv. heilbr.- og trn. gefst mér tækifæri til þess að skoða það ofan í kjölinn. Þó vil ég spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga í þeim efnum.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að fjárþörf sjóðsins samkvæmt fjárlagafrv. sé 2.314 millj. Þar er gengið út frá 3,5% atvinnuleysi. Fjárlagafrv. gerir hins vegar ráð fyrir ríkisframlagi upp á 1.964 millj. Síðan er gert ráð fyrir að 250 millj. kr. verði seldar af eignum sjóðsins. Hver er eiginfjárstaða sjóðsins þegar búið er að selja 250 millj. kr., gangi þessar tölur allar eftir? Ég hef efasemdir um að það muni gerast vegna þess að ég spái því að atvinnuleysið muni verða mun meira en hér er gert ráð fyrir.
    Spáð hefur verið að atvinnuleysi geti orðið á bilinu 4--6%. Við skulum taka töluna þar á milli og segja 5%. Sem útgjöld fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð við óbreyttar aðstæður, enga skerðingu, enga fjölgun þeirra sem samkvæmt reglum sjóðsins eiga rétt á atvinnuleysisbótum, þýðir 5% atvinnuleysi 3.200 millj. kr. Þetta fæ ég út með því að nota tölur sem komu fram hjá tveimur hv. þm. sem sátu sem varaþingmenn fyrir skömmu og eiga báðir sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, þeim Pétri Sigurðssyni og Guðmundi Þ Jónssyni. Þeir sögðu að hvert atvinnuleysisprósentustig þýddi 650 millj. kr. á ári fyrir sjóðinn.
    Menn tala um skattahækkunaræði ríkisstjórnarinnar og ég tek alveg undir það. Ég ætla þó ekki að fjalla sérstaklega um það núna, það gefast nóg tækifæri til þess síðar. En ég spyr hæstv. ráðherra einnar spurningar: Hefur verið kannað hvaða hópar eru á skrá Atvinnuleysistryggingasjóðs? Þá á ég við úr hvaða greinum atvinnulífsins þetta fólk komi og hvaða menntun það hafi.
    Ástæða þessarar spurningar eru áform ríkisstjórnarinnar um að draga úr skattsvikum. Ég held gert sé ráð fyrir að ná inn 500 millj. kr. á árinu 1993 vegna herts skatteftirlits. Í umræðu sem átti sér stað fyrir rúmri viku þegar rætt var um hugsanleg undanskot frá skatti fullyrtu menn að þetta gætu verið upphæðir á bilinu 7--9 milljarðar kr. Nú ætla ég ekkert að fullyrða í þeim efnum. Fyrir tveimur eða þremur árum eða jafnvel er enn lengra síðan kom út skýrsla sem gerði ráð fyrir --- þá var reyndar söluskatturinn við lýði og breytingar orðið á skattakerfinu síðan --- að svört atvinnustarfsemi væri á bilinu 5--8 milljarðar kr.
    Þegar ég spyr hæstv. ráðherra hver samsetningin sé á þeim hópi sem er á atvinnuleysistryggingum þá veltur maður því fyrir sér hvort ekki væri möguleiki á að nota þá peningana sem verið er að greiða ákveðnum hópi, kannski velmenntuðum hópi fólki sem hefði alla burði til þess að fara í skatteftirlit, þekkti innviði fyrirtækjanna, þekkti vel til bókhalds og annarra slíkra hluta og nýta peningana þannig í sérstakt átak til skatteftirlits. Þá á ég auðvitað ekki við að menn ættu að útbúa sérstaka rannsóknarlögreglu á vegum Atvinnuleysistryggingsjóðs í þessum efnum heldur verkefnaráða þetta fólk hjá skattrannsóknarstjóra og

nýta þá fjármuni sem eru útgjöld ríkisins hvort sem er til þess hóps sem er atvinnulaus. Peningarnir geti þannig farið í skatteftirlitið og árangur næðist í þeim efnum, kannski miklu meiri árangur en útgjöldin sem við erum með til þessa hóps vegna atvinnuleysisbóta.