Minnst látins fyrrverandi alþingismanns

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 13:56:19 (2730)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Ragnar Jónsson, fyrrum skrifstofustjóri, varð bráðkvaddur á heimili sínu hér í Reykjavík í fyrrakvöld 24. nóvember, 77 ára að aldri.
    Ragnar Jónsson var fæddur í Bjóluhjáleigu í Holtum, Rangárvallasýslu, 24. ágúst 1915. Foreldrar hans voru hjónin Jón bóndi þar, síðar bóndi á Hrafntóftum í Djúpárhreppi Jónsson bónda í Bjóluhjáleigu Eiríkssonar og Anna húsfreyja Guðmundsdóttir bónda í Miðhúsum í Hvolhreppi, síðar á Stórólfshvoli Einarssonar. Hann ólst upp á fjölmennu heimili við almenn sveitastörf, stundaði síðan nám í Verslunarskóla Íslands og brautskráðist þaðan vorið 1936. Verslunarmaður hjá Kaupfélaginu Þór á Hellu var hann 1936--1938 og fulltrúi þar 1942--1950. Veturinn 1938--1939 var hann við framhaldsnám í Þýskalandi og síðan við verslunarstörf í Reykjavík 1939--1942. Hann var framkvæmdastjóri Verslunarfélags Vestur-Skaftfellinga í Vík í Mýrdal frá stofnun þess 1951 til 1961. Skrifstofustjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í Reykjavík var hann frá 1961--1985, lét af því starfi rúmlega sjötugur, en var svo að lokum forstjóri hennar nokkra mánuði fram á árið 1986.
    Ragnar Jónsson átti sæti í milliþinganefnd í samgöngumálum 1956--1958, var endurskoðandi Landsbanka Íslands 1963--1985 og skipaður 1964 í endurskoðunarnefnd frumvarps um heftingu uppblásturs og græðslu lands. Hann var snemma áhugasamur um stjórnmál, var í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík 1941--1942 og formaður Sjálfstæðisfélags Vestur-Skaftfellinga um skeið á starfsárum sínum í Vík. Á sjöunda áratugnum tók hann sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi við alþingiskosningar og var kjörinn varaþingmaður kjördæmisins og jafnframt varaþingmaður landskjörinna þingmanna flokksins. Á árunum 1963--1969 tók hann ár hvert sæti á Alþingi, flest árin oftar en einu sinni. Frá vori 1967 til alþingiskosninga þá um sumarið var hann landskjörinn alþingismaður, tók við þingsæti eftir afsögn Davíðs Ólafssonar sem varð þá seðlabankastjóri.
    Þó að Ragnar Jónsson væri skamman tíma í föstu þingsæti átti hann alllanga setu á Alþingi samanlagt. Hér sem annars staðar vann hann að málum traustur og samviskusamur. Hann nam verslunarfræði og aðalstarf hans um ævina var við verslun og viðskipti. Síðast var hann skrifstofustjóri og staðgengill forstjóra umsvifamikils fyrirtækis. Hann var vinsæll meðal samstarfsmanna sinna, dagfarsprúður, skyldurækinn og farsæll í starfi. Í hléum frá annasömum skyldustörfum var hestamennska eitt af helstu áhugamálum hans.
    Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Ragnars Jónssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]