Vaxtalög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 14:10:29 (2733)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á vaxtalögum. Með þessari breytingu er verið að setja í lög forsendur fyrir því að dráttarvextir í landinu lækki frá því sem nú er. Þessi breyting er, eins og fram hefur komið, einn liður í þeim ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru fyrr í þessari viku.
    Í frv. er lagt til að í stað þess að dráttarvextir séu ákveðnir með 5--10% álagi á almenna útlánsvexti banka og sparisjóða, eins og nú er í lögum, þá lækki þessi álagsheimild í bilið 2--6%. Samkvæmt vaxtalögunum er það hlutverk Seðlabankans að ákveða dráttarvextina innan þeirra marka sem þar eru tilgreind.
    Að undanförnu hefur dráttarvaxtaálagið verið við neðri mörkin sem lögin ákveða, þ.e. um 5% ofan á meðalávöxtun nýrra útlána í bönkum og sparisjóðum. Það liggur fyrir að Seðlabankinn mun þegar nýta sér aukið svigrúm sem breytingin á lögunum, ef að lögum verður, gefur til þess að lækka dráttarvextina. Það virðist hæfilegt að þeir lækki um 2--2,5%.
    Ég minni á að þegar vaxtalögin voru sett árið 1987 voru aðrar aðstæður í verðlags- og vaxtamálum en nú eru. Ég nefni sem dæmi að ávöxtun almennra útlána var að meðaltali 30% árið 1987 og rúmlega 35% ári síðar. Um þessar mundir eru þessir vextir hins vegar á bilinu 12--13% og gætu farið lækkandi þegar fram í sækir eftir því sem batnandi jafnvægi kemur fram á lánamarkaði. Við þessar aðstæður er að mínu áliti óeðlilegt að dráttarvextir séu með jafnháu álagi á almenna útlánsvexti og nú er kveðið á um í vaxtalögunum.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.