Vaxtalög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 14:25:13 (2735)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hv. efh-. og viðskn. barst boð um fund um klukkan hálftólf í dag til að fjalla um nýframlagt frv. um breytingu á vaxtalögum. Til marks um vilja stjórnarandstöðunnar til þess að greiða götu fyrir því sem getur leitt til vaxtalækkunar vil ég að það komi fram að það var eingöngu fyrir það að stjórnarandstaðan mætti á nefndarfund í hádeginu að hægt var að ganga frá því að málið kæmist áfram í dag. Það fór sem oftar í þeirri ágætu nefnd að fátt var um fulltrúa stærri stjórnarflokksins, Sjálfstfl., á þeim fundi. Það er því eingöngu fyrir tilverknað stjórnarandstöðunnar ef það tekst að koma þessu máli áfram í dag. Ég mun fyrir mitt leyti stuðla að greiðum framgangi þessa.
    Ég vil hins vegar ítreka það sem kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns að hér er ekki um stórt atriði að ræða til vaxtalækkunar. Miðað við þær forsendur sem hæstv. ráðherra gaf áðan gætu það verið fyrir sjávarútveginn á bilinu 60--80 millj. á ársgrundvelli. Ég geri hins vegar ekki lítið úr því að það getur skipt afar miklu máli fyrir skuldsett fyrirtæki sem eru að reyna að vinna sig út úr vanda að dráttarvaxtarúllettan snúist ekki af fullum krafti.

    Ég vil einnig ítreka það sem kom fram hjá mér á nefndarfundi í hádeginu að ég tel það algjört skilyrði þegar kemur að 2. umr. í dag liggi það fyrir á skýran hátt hvernig Seðlabankinn hyggst breyta dráttarvaxtastiginu fyrir desembermánuð og hvort hann er tilbúinn til þess að endurskoða nýtekna ákvörðun þar um.
    Ég vil einnig leggja áherslu á það að ég mun beita mér fyrir því að í nál. komi fram að Alþingi ítreki í þessu litla máli að með samþykkt og fljótri fyrirgreiðslu þessa máls sé Alþingi að koma þeim skilaboðum til Seðlabanka og til bankakerfisins að það verði gengið í það af alvöru að skapa þau skilyrði að vextir geti lækkað og beitt handafli þar sem það er hægt, eins og hæstv. ríkisstjórn er að gera með framlagningu þessa máls. Hér er verið að beita því sem menn hafa kallað handafl, breyta lögum til þess að lækka vexti. Það mundi ég telja hið jákvæða við samþykkt þessara laga ef þeim fylgdu þau skýru skilaboð frá Alþingi að með þessu sé verið að ætlast til þess að bankakerfið og að sjálfsögðu ríkisstjórnin skapi skilyrði fyrir lægri vöxtum. Ríkisstjórnin er ekki svo lítill áhrifavaldur varðandi vexti, bæði gegnum þá pappíra sem ríkið er að selja og kannski ekki síst varðandi húsbréfakerfið. Þetta vil ég að komi skýrt fram. Þetta er þeim mun brýnna því það kom fram á fundinum hjá okkur í hádeginu að allar líkur eru á því að þessi lækkun geri það að verkum að innan bankanna verði settur þrýstingur á að hækka vaxtamun, annaðhvort með því að hækka útlánsvexti eða lækka innlánsvexti.
    Þá kem ég að því sem ég hefði viljað hafa sem viðbótarinnlegg í þessa umræðu. Að mínu mati gerist ósköp lítið í vaxtamálum á næstunni ef ekki verður tekið á mjög ákveðinn hátt á skuldastöðu fyrirtækjanna og skuldbreytingu þar. Það hefur verið að koma í ljós á síðustu mánuðum að þrátt fyrir það að spenna á lánsfjármarkaði hafi minnkað, framboð verið meira, eftirspurn minni, þá hafa vextir ekki lækkað eins og markaðslögmál hefði átt að segja fyrir um. Það er að mínu mati einfaldlega vegna þess að bankarnir spenna upp vaxtamun eins og þeir mögulega geta til þess að geta afskrifað fyrir tapi í atvinnulífinu. Þarna liggur að mínu mati stærsti áhrifavaldur þess hve vextirnir eru háir. Það verður ekki lagað á annan hátt en þann að fara í víðtæka skuldbreytingu í atvinnulífinu.
    Það segir sig sjálft þegar einn af stærstu bönkunum er að gera upp eftir átta mánuði á núlli, eftir að hafa tekið tæpan milljarð í afskriftasjóð á þessum tíma, að það er tekið af vaxtamun og heldur vöxtunum uppi. Ég held því miður, virðulegi forseti, að í þeim tillögum sem nú liggja fyrir í efnahagsmálum frá ríkisstjórninni sé á engan hátt tekið á þessu máli sem skyldi. Það er rætt um skuldbreytinguna í gegnum þróunarsjóðinn en það er óútskýrt hvernig hann á að vinna. Að mínu mati þarf að gera miklu meira en manni skilst að þar sé reiknað með að taka þar við skuldbindingum verst stöddu fyrirtækjanna jafnóðum og þau fara á hausinn. Það er ósanngjarnt gagnvart þeim fyrirtækjum sem standa eilítið betur en þurfa engu að síður á skuldbreytingu að halda. Þess vegna er það höfuðnauðsyn að mínu mati að til hliðar við þær ráðstafnir sem menn hugsa sér að gera í gegnum þróunarsjóðinn, sem ég hef ekki enn þá séð hverjar eru en manni skilst að beinist fyrst og fremst að verst stöddu fyrirtækjunum, þá gangist ríkisstjórnin fyrir samvinnu aðila á lánamarkaði fyrir víðtækri skuldbreytingu og, eins og ég hef nefnt áður úr ræðustól á hinu háa Alþingi, að væntanlega þyrftu bankarnir einnig að fá víðtækari heimildir en þeir hafa í dag til þess að breyta skuldum í hlutafé. Ég beini því hér til hæstv. viðskrh. að frá minni hálfu væri ég tilbúinn, ef ríkisstjórnin vildi skoða þá leið, að skoða það að flýta sérstaklega þeim hluta að nýjum bankalögum sem snýr að þessum þætti. Ég tel einfaldlega að hér sé um að ræða það mikilvægt mál til þess að hægt sé að lækka vexti.
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki miklu meira um þetta mál að segja á þessu stigi. Hv. efh.- og viðskn. mun fjalla um það seinna í dag og fara yfir nál. þar sem að mínu mati verða að koma fram þau skilaboð sem ég nefndi áðan. Það mun geta greitt fyrir því að málið fái framgang í dag.