Vaxtalög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 14:34:21 (2736)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er komið til umræðu fyrsta málið sem tengist þeim efnahagspakka ríkisstjórnarinnar sem mjög hefur verið til umræðu undanfarna daga, m.a. í þinginu, um umdeildar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Hér er reyndar komið eitt af þeim málum sem sennilega ríkir mikil samstaða um á Alþingi þótt það hljóti vissulega að vakna ýmsar spurningar varðandi þessa aðgerð. Það hefur margsinnis verið ítrekað og ég held það sé almenn skoðun að vextir séu allt of háir hér og það þurfi að knýja þá niður með ýmsu móti. Sú breyting sem hér er verið að leggja til ætti að hafa einhver áhrif í þá átt og hún ætti að létta undir með fyrirtækjunum í landinu þótt það sé nokkuð óljóst hversu mikil áhrifin eru.
    Eins og hér hefur komið fram fórum við nefndarmenn í hv. efh.- og viðskn. í gegnum þetta mál áðan með fulltrúa Seðlabankans þar sem málið skýrðist að sjálfsögðu. Þó er ýmislegt óljóst og þá ekki síst það hvernig bankarnir muni bregðast við og hvaða áhrif þetta muni hafa á stöðu bankanna. Það er kannski ekki ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þeim nema ef vera kynni af Landsbankanum sem, eins og við vitum, hefur atvinnulífið að miklu leyti á sinni könnu og þarf að taka á sig mikið tap. Það jafnar sig kannski upp. Það er tæpt að þeir nái inn þessum dráttarvöxtum og verður sjálfsagt að semja um þá og jafnvel að gefa þá eftir í mörgum tilvikum. Sú spurning vaknar samt hvernig bankarnir muni bregðast við. Ég tek undir það sem fram kom í máli síðasta ræðumanns að það verður auðvitað að liggja fyrir, áður en málið verður afgreitt, hver afstaða Seðlabankans er í málinu. Ég vil því spyrja hæstv. viðskrh.: Hefur hann rætt við stjórn Seðlabankans um það hvernig hún muni bregðast við þessum lögum? Ég vil líka spyrja: Hefur öðrum bönkum verið kynnt þetta mál?
    Það er auðvitað ljóst að þau skilaboð sem Alþingi sendir bönkunum með frv. eru að það beri að lækka dráttarvexti. En mörkin eru nokkuð víð og það kom fram í máli fulltrúa Seðlabankans að dráttarvextirnir liggja núna fremur nærri lágmarkinu þannig að þeir þurfa kannski ekki að lækka mikið nema vilji sé til þess.
    Sú spurning vaknar hvort breyting af þessu tagi geti orðið til þess að hvetja til vanskila. Það er auðvitað ákveðin hætta sem felst í svona lækkun. Það breytir auðvitað ekki því að þessi lækkun er nauðsynleg að mínum dómi en við hljótum hér eins og ávallt að verða að gera okkur grein fyrir því hver áhrifin og viðbrögðin verða. Ég vona svo sannarlega að þessi lög leiði til lækkunar dráttarvaxta og vonandi hafa þau þau áhrif að vextir lækki almennt. Eins og málið horfir við okkur núna er það býsna óljóst.