Vaxtalög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 14:38:29 (2737)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég held það sé mikilvægt fyrir alla að greiða fyrir þessu litla frv. sem hæstv. viðskrh. leggur fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Hins vegar hygg ég að það væri blekking að halda því fram að það muni hafa mikil áhrif fyrir íslenskt atvinnulíf. Þó ég búist við því að flestir séu sammála um það að dráttarvextir séu í mörgum tilfellum of háir og oft kannsi ósanngjarnir þegar fyrirtæki lenda í miklum erfiðleikum. Sem betur fer gerist það í öðrum tilfellum að þau fá þeim breytt í samningsvexti og fellda niður að hluta þegar skil hafa orðið og betri framtíð blasir við. Það mun vera svo að dráttarvextir eru 5% hærri á almennum skuldabréfum en venjulegir vextir.
    Ég vil hins vegar taka undir það að ekkert hygg ég að sé íslensku atvinnulífi og kannski einstaklingunum í þjóðfélaginu um þessar mundir jafnmikilvægt og að vextir almennt í landinu verði lækkaðir. Ég heyrði viðtal við Einar Odd Kristjánsson, landsfrægan mann, í hádeginu þar sem hann brýndi til aðgerða í þessum efnum með öllum tiltækum ráðum. Það er kannski ekki þar síst sem mönnum finnst að ríkisstjórnin hafi ekki nægan vilja. Kannski er þetta litla frv. sem hér er borið fram handaþvottur til að fría sig af því að taka á því mikla vandamáli sem blasir við. Ég er sannfærður um að það er hægt að lækka vexti en þá verða menn að ráðast að þeim sem ráða vöxtunum á Íslandi.
    Nú vill svo til, hæstv. viðskrh., að ríkissjóður er annar aðilinn sem ræður vöxtum á Íslandi. Ég rakti það í fyrrakvöld fyrir hv. alþm. að t.d. hefðu gæðingar ríkisstjórnarinnar notið þess fyrir sex mánuðum síðan að fá nýjan flokk með mjög háum vöxtum á sparifé sitt. Þá var opnaður af hálfu hæstv. fjmrh. nýr lánaflokkur, ríkisbréf, þar sem borgaðir eru á sparifé 10,7% vextir í dag. Á þessu hálfa ári hafa t.d. safnast þarna saman 3

milljarðar kr. Þetta eru stríðaldir gæðingar sem eru orðnir vanir góðu og sætta sig ekki við nema gott fóður. Þess vegna vakna þær spurningar, þegar þessi stórkostlegu tilboð af hálfu ríkisvaldsins um að borga á húsbréf, ríkisvíxla, ríkisbréf, spariskírteini ríkisins frá 8% og upp í 11% á spariféð, hvort ekki sé hægt við þessar aðstæður að gera þessu ágæta eignafólki á Íslandi grein fyrir því að atvinnulífið þolir ekki vextina sem það býr við.
    Þegar menn tala um að bankarnir geti lækkað vexti þá er það ekki einfaldur hlutur meðan þessi stórkostlegu tilboð á sparifénu eru í gangi af hálfu ríkisins því að bankarnir borga um 5% á sínar bestu bækur. Á annað sparifé er greitt 2--3%. En það gera sér allir grein fyrir því að til að lækka útlánsvexti verða innlánsvextir að lækka.
    Hæstv. viðskrh. Þarna hef ég rakið að því miður er ríkisvaldið um þessar mundir að borga einhverjum stórum sparifjáreigendum vexti á spariféð sem eru jafnháir og útlánsvextir bankanna eru um þessar mundir. Ég vil í tengslum við þetta frv. og þessi áform spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sjái sér fært að taka á þessum vanda.
    Ég rakti það enn fremur hér um nóttina hversu gífurleg peningasöfnun ríkisstjórnarinnar væri þar sem í ríkisbréfum, ríkisvíxlum, spariskírteinum og húsbréfum væru orðnir jafnmiklir peningar til eins og í öllu bankakerfinu. Sem sé, sparnaður landsins er að færast yfir í þessa ríkisbanka sem hæstv. ríkisstjórn rekur, húsbréfabankann og Lánasýslu ríkisins upp á Hverfisgötu.
    Ég vil líka minna á þann tvískinnung sem ríkir og ég held að lífeyrissjóðirnir verði þar mjög að gá að sér. Það er ljóst mál að aðilar vinnumarkaðarins leggja mikla áherslu á vaxtalækkun, þeir sjá að atvinnulífið þolir þetta ekki en það er hörmulegt að hugsa sér að sömu aðilar ráði ferðinni í lífeyrissjóðunum. Þegar þeir hafa heimtað vaxtalækkun af hæstv. viðskrh. ganga þeir inn í næsta herbergi og segja: Nú verða ekki keypt meiri húsbréf af henni Jóhönnu nema við fáum hærri vexti á okkar peninga. ( Forseti: Forseti hlýtur að neyðast til að benda hv. þm. á að maður ávarpar hæstv. ráðherra eins og hefð er hér á Alþingi.) Hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ekki vil ég draga úr þeim heiðri sem hún á, hæstv. forseti, og viðhalda hér öllum þingvenjum því að margt gott hugsar hæstv. félmrh. um þessar mundir ef ég þekki hana rétt og er ekki sammála öllum þeim aðgerðum sem hæstv. ríkisstjórn hefur ráðist í og finnst þær ekki réttlætanlegar.
    Ég vildi koma hér til að spyrja hvort hæstv. viðskrh. sér einhverja leið til þess að ná sátt þessara stóru aðila, ríkisvaldsins, lífeyrissjóðanna og stórpeningaaflanna í landinu, til að sætta sig við lægri vexti á sitt sparifé svo hægt sé að lækka útlánsvexti en sannarlega mun ekkert frekar styrkja íslenskt atvinnulíf um þessar mundir.