Vaxtalög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 14:57:12 (2739)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var afar athyglisvert að heyra hæstv. viðskrh. segja áðan að gengisbreytingin upp á 6% sem nýlega hefur farið fram hafi einungis verið núllstilling atvinnulífsins gagnvart þeim breytingum sem hafa orðið á síðustu vikum í okkar helstu viðskiptalöndum í Evrópu. Þetta staðfestir það sem við fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfum haldið fram að eftir þessa breytingu, þ.e. gengisbreytinguna, standi grunnatvinnuvegirnir á sama grunni og þeir gerðu í ágústmánuði sl. og sjávarútvegurinn stefni á næsta ári í 8% tap. Sé þetta réttur skilningur er það þeim mun mikilvægara að það takist að koma á þeirri skuldbreytingu sem ég nefndi áðan. Ef þetta er í raun eins og við höfum haldið fram stöndum við í sömu sporum og þegar menn voru að hefja þjóðarsáttarumræðurnar í haust og þá er kannski aldrei meiri þörf á víðtæku samstarfi og sátt aðila vinnumarkaðar og stjórnmálaafla en einmitt núna.
    Varðandi þau ákvæði sem ég nefndi áðan um breytingar á bankalögum, hæstv. ráðherra nefndi að frv. væri komið fram og reyndar búið að mæla fyrir því, þá liggur það ljóst fyrir að hv. efh.- og viðskn. hefur engin tök á því að fara í þá vinnu í heild fyrir áramót. Þess vegna nefndi ég sérstaklega þennan þátt.
    Það kom reyndar fram, að því er ég tel, réttur skilningur hjá hæstv. ráðherra í þeim umleitunum sem hafa verið milli ríkisstjórnar og lífeyrissjóðanna um aukna þátttöku þeirra í atvinnulífinu, miklu réttari skilningur en hefur oft komið fram í fjölmiðlum hjá fulltrúum ríkisstjórnarinnar sem hafa nánast haldið því fram að búið væri að semja um þessa þátttöku. Það verðu auðvelt að semja við lífeyrissjóðina um að þeir komi af auknum krafti inn í atvinnulífið og sýni lánamarkaðnum aukinn skilning þegar svo er komið að sami maður er orðinn forustumaður lífeyrissjóðanna og forseti ASÍ.