Vaxtalög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 15:03:13 (2742)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Mér þótti það allathyglisverð yfirlýsing hjá hæstv. viðskrh. að ekki var annað að heyra en að hann fagnaði þeirri niðurstöðu sem orðið hafi á ASÍ-þingi, að Pétur Sigurðsson hafi fallið í kosningum. Ástæðan var sú að hann taldi að sá sem kjöri hafi náð hafi mikinn skilning á vaxtamálum. Ég vil hafa þessa skoðun alveg skýra.
    Mér er ljóst að núverandi forseti Alþýðusambands Vestfjarða hélt þannig á málum í kosningabaráttu vestur á Fjörðum að hann óraði ekki fyrir öðru en að Alþfl. mundi taka upp viðræður við þá flokka sem hann hafði unnið með. Það kom mjög flatt á hann þó ekki sé meira sagt þegar hann áttaði sig á því að það var búið að semja á annan veg.
    Nú er það aftur á móti upplýst hér með athyglisverðum hætti hvernig hæstv. viðskrh. lítur á úrslit kosninganna á Akureyri.