Atvinnuleysistryggingar

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 15:09:20 (2745)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er verið að taka ákvörðun um að leggja til atvinnumála 500 millj. Eins og ég hef áður sagt í umræðu um þetta mál tel ég það af hinu góða. Hins vegar hef ég vakið athygli á því að sá farvegur sem ætlaður er fyrir þetta fé er að því leyti sérstæður að upplýst er að sveitarfélögin eigi að útbúa umsóknir sínar svo vel úr garði að það sé hægt að taka þær beint til atkvæðagreiðslu án þess að sú stofnun sem á að sjá um að útdeila fénu hafi neina sérstaka vinnu í frammi til að leggja mat á umsóknirnar.
    Ég fer ekki dult með það að mér finnst hér um mikla afturför í vinnubrögðum að ræða miðað við þær ákvarðanir sem yfirleitt liggja að baki því þegar menn fara af stað með uppbyggingu í atvinnulífinu. Það sem er athyglisvert við þetta er að hér er um verulega upphæð að ræða sem gæti nýst ef vel væri á málum haldið.
    Ég gerði einnig athugasemd við það að sú ákvörðun að leggja nefskatt á íbúa sveitarfélaganna, mismikinn eftir íbúafjölda og án þess að tillit sé tekið til þess hversu miklu fé sveitarfélögin hvert og eitt hefðu ráðstafað til atvinnuuppbyggingar hjá sér, væri ekki rökrétt. Það hlýtur að vera eðlilegt að þau sveitarfélög sem hafa varið miklum upphæðum til þess að styðja við uppbyggingu atvinnulífsins hjá sér og komið í veg fyrir atvinnuleysi með þeim aðgerðum geti á einhvern hátt vænst þess að þeim verði metið það til tekna að hafa staðið þannig að málum.
    Ég rakti það í ræðu minni hvernig upplýst hefði verið í mín eyru að sveitarstjórnarmenn á Bretlandi, fulltrúar Verkamannaflokksins, hefðu talið að ætti að standa að stuðningsaðgerðum til að minnka atvinnuleysi og höfðu bent á Þýskaland sem dæmi um hvar vel hefði tekist að draga úr atvinnuleysinu. Hæstv. ráðherra tjáði þingheimi að hann hefði vissulega gengið í smiðju til þeirra sem hefðu kynnst atvinnuleysinu á undanförnum árum og nefndi sérstaklega tryggingaráðherra Svía og Finnlands og sagði að þeirra hugmyndir væru að ganga í EB.
    Nú er það svo að ég vænti þess að hæstv. heilbrrh. átti sig á að þessar þjóðir hafa ekki verið þær sem átt hafa við mest atvinnuleysi að stríða á undanförnum árum þó ástandið í Finnlandi sé vissulega mjög alvarlegt eftir hrun Sovétríkjanna. Og hvað sem líður trú þeirra á möguleikum innan EB er þetta svar að því leyti út í hött að það segir ekkert um það hvort menn ætli að una atvinnuleysinu eða gera þær ráðstafanir að gera fólki kleift að fara í endurmenntun eða starfsþjálfun og reyna að stuðla að tilfærslu milli atvinnugreina og draga þannig úr atvinnuleysi.
    Ég verð þess vegna að segja eins og er að ég óttast að 500 millj. nýtist illa til atvinnuuppbyggingar vegna þess hvernig ætlað er að standa að þessum málum. Sú hugsun sækir dálítið á mig hvort það sé kannski tímanna tákn að þó vissulega sé virðuleg stjórn yfir þessum sjóði gæti farið svo að það mundi minna örlítið á einhverja frægustu stjórn sem setið hefur yfir stofnun á Íslandi, stjórnina sem sat yfir Álafossi á seinustu lífdögum hans. Það voru ákaflega mætir menn en ég efa að þeir hafi haft mikinn tíma til að kynna sér það málefni sem þar var við að glíma. Ég óttast að ef sjóðstjórn hefur ekki á að skipa liði til að leggja raunhæft mat á það hvað skynsamlegt sé að gera, verði tillögur hennar

dálítið út og suður.