Atvinnuleysistryggingar

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 15:16:27 (2746)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Ég heyrði það á orðum hæstv. forseta áðan að ætlun manna er að koma þessu máli til nefndar.
    Þannig hagar til í umræðunni að hæstv. heilbr.- og trmrh. kom mjög víða við í ræðu sinni. Hann hélt 35 mínútna ræðu og ræddi allt frá tillögum Alþb. í efnahagsmálum yfir til hins Evrópska efnahagssvæðis þannig að það getur tekið nokkrar mínútur að svara ræðu hæstv. ráðherra, sem er alveg óhjákvæmileg vegna þess hvernig hann setti hlutina upp.
    Auðvitað er hér ekki um að ræða mál sem er með þeim hætti að það geti vaðið í gegn öðruvísi en að fá nokkra umræðu, ekki síst eftir að hæstv. ráðherra fór mjög óvenjulega að málinu í ræðu sinni áðan. Það er fagnaðarefni að hæstv. ráðherrar svari mönnum ítarlega og komi víða við í ræðum sínum og láti hvergi sitt eftir liggja.
    Í ræðu minni fyrr í dag lagði ég áherslu á þann mikla fjárhagsvanda sem Atvinnuleysistryggingasjóður stendur frammi fyrir. Þar er því miður um fjárhagsvanda að ræða upp á stórar tölur miðað við þær horfur sem nú eru að því er varðar atvinnuleysi á árinu 1993. Eins og hv. ráðherra viðurkenndi er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði talsvert meira árið 1993 en gert var ráð fyrir þegar fjárlagafrv. var samið á sínum tíma og greinargerð þess.
    Til þess að mæta þeim vanda sem er í atvinnulífinu hefur verið rætt um þann möguleika, eins og hæstv. ráðherra ræddi ítarlega í ræðu sinni, að lækka aðstöðugjaldið. Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um það fyrir sitt leyti og hæstv. ráðherra velti því fyrir sér hvort lækkun aðstöðugjalds kæmi fram í verðlagi með þeim hætti sem gert hafði verið ráð fyrir. Ég verð að segja eins og er að ég deili áhyggjum með ráðherranum í þessu efni þ.e. að sá árangur verði ekki af lækkun aðstöðugjaldsins í verðlagi. Fyrst og fremst vegna þess að á sama tíma er gengið fellt um 6% sem er allt annað en það sem menn töluðu um m.a. af hálfu Alþb. og verkalýðshreyfingarinnar þegar þessi mál voru í undirbúningi.
    Ég verð þess vegna að ítreka þá skoðun mína sem fram kom fyrir rúmlega einum sólarhring að ég tel óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin grípi þegar í stað til aðgerða til að koma í veg fyrir stórkostlegar verðhækkanir. Ég sé ekki betur en farinn sé af stað eldur verðhækkana um þjóðfélagið og hann hafi í raun og veru byrjað strax daginn sem gengisbreytingin var tilkynnt. Hjá verslunum og þjónustufyrirtækjum tilkynntu menn verulegar verðhækkanir á vörum sínum og þjónustu jafnvel umfram það sem gengislækkuninni nemur. Menn voru að tala t.d. um 8% verðhækkanir á tilteknu þjónustuframboði ferðaskrifstofa svo dæmi sé nefnt. Ég held því að nauðsynlegt sé að taka á málinu, sérstaklega ef menn hafa líka áhuga á að verja hag atvinnuleysingjanna. Samkvæmt yfirlýsingu forsrh. í fyrrakvöld versna kjör atvinnuleysingja á Íslandi, þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum, um 3% með þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur sjálf tilkynnt.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. ræddi síðan mjög rækilega um skattamál og fullyrti í ræðu sinni að ekki væri um skattahækkun að ræða. Það kann út af fyrir sig að vera að heildargjaldtaka til opinberra aðila sé svipuð og hún var, en þó hygg ég að hún sé tvímælalaust á árinu 1993 hærra hlutfall en hún hefur áður verið af þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu. Ég geri ráð fyrir því að skattheimta af þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu verði hærra hlutfall á næsta ári en hún hefur verið nokkurn tíma áður. Ég skoðaði þessa hluti reyndar nokkuð rækilega í fyrradag og samkvæmt fjárlagafrv. er það svo að það er gert ráð fyrir því að heildartekjur ríkissjóðs á árinu 1993 verði um 111 milljarðar kr. Síðan er verið að tala um hækkanir upp á milli 5--6 milljarða kr. samkvæmt ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Það er hækkun á þessum tölum um 5--6% þannig að ég sé ekki betur en heildartekjur ríkisins á árinu 1993 verði milli 29--30% af vergri landsframleiðslu og það er ekki nokkur leið að finna nokkurn tímann eins háa tölu sem ríkið tekur til sín og ætlunin er að taka samkvæmt stefnu þeirra flokka sem núna stjórna landinu og báðir munu hafa það á stefnuskrá sinni að afnema helst alveg tekjuskattinn.
    Það liggur líka fyrir, það er alveg ómótmælanlegt, að skattar á einstaklinga verða

í hámarki á næsta ári, þeir hafa aldrei verið hærri. Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1993 liggur dæmið þannig að þar er gert ráð fyrir sköttum upp á 13,4 milljarða kr. sem væru tekjuskattar á einstaklinga, 13,4 milljarðar kr. Núna er gert ráð fyrir að bæta við um 4,2 milljörðum króna við þessa tölu með því að hækka skatta um 2,8 milljarða, með því að leggja á þennan sérstaka svokallaða hátekjuskatt sem er svo sem ekki neitt upp á 300 millj., með því að lækka barnabætur um 500 millj. og með því að lækka vaxtabætur um 500 millj. Allt gerir þetta hækkun skatta upp á 4,2 milljarða þannig að sú tala sem í fjárlagafrv. er núna upp á 13,4 milljarða fer upp í 17,6 milljarða. Það er 31% skattahækkun og ég segi það fullum fetum: Það hefur aldrei nokkurn tímann verið gerð tillaga um eins mikla skattahækkun á einstaklinga og verið er að gera tillögu um hér, aldrei nokkurn tíma. Þessi tillaga sem hæstv. ríkisstjórn gerir er algerlega einstök að þessu leytinu til og í rauninni er niðurstaðan sú að vandanum er fyrst og fremst velt yfir á einstaklingana, yfir á heimilin, fólkið í landinu.
    Hér áðan undir síðasta dagskrárlið var hæstv. viðskrh. að flytja mikla mærðarræðu um nauðsyn þess að afkoma bankanna væri góð. Það er fallega hugsað til bankanna, ég verð að segja það alveg eins og er. En menn mættu hugsa til heimilanna í landinu og fjölskyldnanna, hvernig staða þeirra er um þessar mundir þegar ofan á allt annað, kjaraskerðingu og atvinnuleysi, er verið að hækka skatta upp á 95.200 kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Það er það sem tillögurnar gera ráð fyrir frá þessum miklu skattalækkunarflokkum, Sjálfstfl. og Alþfl.
    Í ræðu sinni ræddi hæstv. heilbrrh. einnig ítarlega um að það væru skerðingar ríkisstjórna á Atvinnuleysistryggingasjóði sem yllu vanda hans. Ég tel að þetta sé ekki rétt. Ég tel að einn meginvandi Atvinnuleysistryggingasjóðs felist fyrst og fremst í atvinnuleysinu. Menn gátu út af fyrir sig látið það yfir sig ganga að skerða eitthvað framlögin til Atvinnuleysistryggingasjóðs meðan atvinnuleysið var varla til í landinu. Staðreyndin er hins vegar sú að Atvinnuleysistryggingasjóður ræður ekki við þau verkefni sem honum eru ætluð samkvæmt lögum eins og horfur eru með atvinnuleysi á næsta ári og það er þess vegna sem í lögum stendur að ríkissjóður eigi að hlaupa undir bagga þegar tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs duga ekki eða eignir Atvinnuleysistryggingasjóðs. Og nú á að fara að selja skuldabréf Atvinnuleysistryggingasjóðs fyrir a.m.k. 250 millj. kr. á næsta ári og ég spyr: Hvernig er markaðurinn fyrir skuldabréf Atvinnuleysistryggingasjóðs, hæstv. ráðherra og hæstv. forseti? Hvernig er markaður fyrir skuldabréf Atvinnuleysistryggingasjóðs við þær aðstæður sem nú eru? Það er auðvitað verið að þurrka Atvinnuleysistryggingasjóð upp með þeirri stefnu í atvinnumálum sem rekin er.
    Hins vegar er ástæða til að fagna því alveg sérstaklega að hæstv. ráðherra ætlar að láta reikna það út hvað Atvinnuleysistryggingasjóður mundi vera sterkur í dag ef hann hefði alltaf notið tekna sinna og þá vil ég biðja hæstv. ráðherra að láta ekki þar staðar numið að reikna með framlögunum sem hafa verið skert til sjóðsins á allra síðustu árum, því að það er tiltölulega nýtt að menn fari að skerða framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs, heldur tel ég að hæstv. ráðherra eigi líka að kanna hverjar væru eignir Atvinnuleysistryggingasjóðs ef hann hefði getað ávaxtað sitt pund með eðlilegum hætti á árunum fyrir 1979 þegar við settum reglur um að það væri heimilt að verðtryggja eignir sjóða og þar á meðal lífeyrissjóða og Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður árið 1955 eftir mjög hörð átök hér á vinnumarkaði. Hann var stofnaður árið 1955 eftir margra vikna verkfall. Og hann var talinn eini árangur þess verkfalls, eini áþreifanlegi árangurinn af því verkfalli. Þess vegna er það mjög alvarlegt að við skulum núna standa frammi fyrir því á þessu ári, eftir allan þennan tíma, að þessi sjóður sé svo illa á sig kominn að hann geti bersýnilega ekki staðið undir því mikla atvinnuleysi sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á fyrst og fremst á næsta ári, fyrst og fremst ber hún ábyrgð á því, og það verði þá að grípa til sérstakra ráðstafana af einhverju tagi sem hæstv. ráðherra viðurkenndi að þyrfti að gera, en vildi ekki skilgreina í einstökum atriðum.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. benti á það að í fjárlagafrv. og í greinargerð þess er gert

ráð fyrir því að hefja atvinnuframkvæmdir á árinu 1993 upp á 2.000 millj. kr. og þess vegna hafi framlög til sjóðsins verið skorin niður um 300 millj. Þannig hafi sparast í atvinnuleysisútgjöldum um 300 millj. kr. Af þessu tilefni taldi ráðherra alveg sérstaka ástæðu til þess að taka upp tillögur Alþb. í efnahags- og atvinnumálum. Mér þykir vænt um að hæstv. ráðherra hefur lesið þær og það hefði út af fyrir sig verið jákvætt ef aðrir ráðherrar hefðu kynnt sér þær tillögur rækilega vegna þess að þá hugsa ég að þeir hefðu kannski komist fram hjá þeim hremmingum sem núna liggja fyrir að því er varðar efnahags- og atvinnumál í landinu.
    Hæstv. ráðherra sagði að samkvæmt tillögum Alþb. væri gert ráð fyrir því að 2.000 millj. kr. framlag af þessu tagi sparaði 600 millj. kr. í atvinnuleysisbótum. Út af fyrir sig er hægt að verja framlögum með ýmsum hætti. Það er hægt að verja framlögum til atvinnumála með ýmsum hætti. Ég er ekki alveg viss um að sú ákvörðun sem ríkisstjórnin tók um að verja þessum 2.000 millj. kr. með þeim hætti sem hún vildi gera séu endilega þeir þættir sem skila langmestu að því er varðar það að draga úr atvinnuleysi. Ég bendi hæstv. heilbrrh. á að skoða sinn eigin málaflokk í þessum efnum. Ég geri ráð fyrir því t.d. að með því að verja nokkrum fjármunum til heilbrigðis- og tryggingamála, m.a. til umönnunar aldrðra, þá megi skapa fleiri atvinnutækifæri, m.a. fyrir konur, heldur en í þeim almennu framkvæmdum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að efna til. Þess vegna vísa ég því á bug þegar hann er að gera lítið úr tillögum Alþb. með þeim hætti sem hann gerði hér áðan og segi um leið að það er afar sérkennilegt þegar hæstv. ráðherrar velja almennar umræður um frumvörp af þessu tagi til þess að koma höggi á sína pólitísku andstæðinga með þeim hætti sem hæstv. heilbrrh. gerði hér áðan.
    Hæstv. ráðherra fullyrti að það þyrfti ekki lagabreytingar til þess að skera niður útgjöld sjóðsins um 100 millj. kr. og hann sagði að það ætti bara að gera með því að samræma vinnureglur og að stjórn sjóðsins skýrði ýmis framkvæmdaratriði. Þetta þarfnast nánari útskýringar. Ég hef satt að segja engar upplýsingar séð um það að svo illa sé staðið að framkvæmd á greiðslu atvinnuleysisbóta að það megi skera þar niður um 100 millj. án þess að nokkur maður taki eftir því og sérstaklega ekki þeir atvinnulausu. Ég held þess vegna að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra skýri það nánar hvernig hann ætlar sér að skera niður 100 millj. af Atvinnuleysistryggingasjóði á næsta ári án þess að breyta lögum og án þess að það komi niður á atvinnulausu fólki eins og hann sagði hér fyrr í dag.
    Hæstv. ráðherra skýrði einnig frá því að hann væri þeirrar skoðunar að það væri óhjákvæmilegt að fleiri fengju greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði heldur en nú er, m.a. einyrkjar, bændur, bílstjórar, sjómenn og slíkir aðilar, og ég er sammála því. Ég hef áður gert grein fyrir því sjónarmiði hér úr þessum virðulega ræðustól. En hæstv. ráðherra sagði að þetta væri kannski ekki fyrst og fremst nauðsynlegt af innlendum ástæðum heldur vegna þess að samningur um EES inniheldur svo mikla göfugmennsku á þessu sviði að það er bannað að hafa þetta kerfi samkvæmt samningnum um EES. Samningurinn um EES gengur út á það, sagði hæstv. ráðherra, orðrétt að allir verði jafnir fyrir lögunum. Ja, þvílík gæfa, þvílík gæfa fyrir blessaða þjóðina að hafa loksins fengið annan eins samning sem gengur út á það að allir verði jafnir fyrir lögunum. Það er fínt fyrir námsmenn núna t.d. svo ég nefni dæmi. Það er fínt fyrir atvinnulausa svo ég nefni annað dæmi að fá upplýsingar um það að samningurinn um EES gangi út á það að allir verði jafnir fyrir lögunum. Auðvitað er þetta endileysa að setja hlutina svona upp og ég vísa þeim algjörlega á bug.
    Hæstv. ráðherra viðurkenndi að lokum í ræðu sinni, að það yrði sennilega óhjákvæmilegt að breyta fjárlagafrv. við 3. umr. Það kemur mér nú satt að segja ekki mikið á óvart, það finnst mér ekki miklar fréttir. En hann viðurkenndi sem er kannski aðalatriðið að það yrði óhjákvæmilegt að breyta þættinum um Atvinnuleysistryggingasjóð við 3. umr. fjárlaga og mér sýnist að staðan sé að verða þannig, ekki aðeins að því er varðar Atvinnuleysistryggingasjóð heldur einnig að því er varðar alla þætti ríkisfjármála að það væri skynsamlegast að hafa bara 3. umr. fjárlaga en ekki 2. umr. vegna þess að ríkisstjórnin verður ekki tilbúin með neitt fyrir 2. umr. fjárlaganna, m.a. ekki Atvinnuleysistryggingasjóð og fjárhag hans.
    Virðulegi forseti. Til þess að greiða fyrir umræðunni hafði ég ákveðið að reyna að taka hér eins og helminginn af þeim ræðutíma sem hæstv. heilbrrh. tók í dag þannig að ég tala núna nákvæmlega helminginn af þeim tíma sem hann notaði og vil með þeim hætti sýna það að ég vil gjarnan greiða fyrir því að mál nái hér fram að ganga. Ég held að það sé ágætt að ráðherrar fari sem víðast yfir þegar kemur að umræðum um almenn mál, en ég bendi á að stjórnarandstaðan hefur verið lipur við stjórnarliðið núna einmitt í dag. Frv. um dráttarvexti sem er gríðarlega mikilvægt mál að mati ríkisstjórnarinnar hefur verið afgreitt núna með stuðningi og hjálp stjórnarandstöðunnar. Það hefur vantað hér í þingsali um helminginn af stjórnarliðinu. Það er mjög sérkennilegt . . .   ( ÓÞÞ: Það er ekki óvenjulegt.) Það er mjög sérkennilegt, hv. þm., að ríkisstjórnarliðið skuli halda svona á málum og formenn þingflokka stjórnarliðsins skuli halda svona utan um atkvæðasveitina sem heitir ,,stemmekvæget`` í danska þinginu, að menn skuli ekki skila sér betur til atkvæðagreiðslna heldur en hér ber raun vitni, en sýnir auðvitað það að stjórnarandstöðunni er náttúrlega mjög umhugað um að dráttarvextir verði umsvifalaust lækkaðir. Þess vegna er það út af fyrir sig jákvætt og gott að það mál nær í gegn af því að stjórnarandstaðan sinnir sínum þinglegu skyldum.
    Ég lagði hér eina spurningu fyrir hæstv. ráðherra að lokum: Hvernig ætlar hann að samræma vinnureglur Atvinnuleysistryggingasjóðs og að láta stjórn sjóðsins skýra ýmis framkvæmdaratriði þannig að það spari 100 millj. kr.? Ég vil heyra nánari fréttir, virðulegi forseti, af því hvernig því kraftaverki verður hagað í einstökum atriðum.