Atvinnuleysistryggingar

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 15:34:20 (2747)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni og öðrum þingmönnum sem stuðla vilja að hraðri afgreiðslu þessa máls. Ég taldi mér hins vegar skylt að reyna að svara öllum þeim atriðum sem fram komu í ræðum hv. þm. hér áðan og tel mig ekki hafa vikið út frá því að svara þeim tilefnum sem þeir gáfu í sínum ræðum.
    Ég vil aðeins taka það fram að þeir aðilar sem eru að vinna að endurskoðun á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð og að framkvæmd atvinnuleysistrygginga og greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði hafa tjáð mér að að þeirra áliti þurfi ekki að breyta lögum um sjóðinn til þess að ná þeim markmiðum sem í fjárlagafrv. stendur. Það sé svo mikil mismunun nú þegar í framkvæmdareglum á einstökum svæðum og hjá einstökum úthlutunarnefndum að með samræmingu þeirra reglna og með því að fylgja lögunum eins og þau eru þannig að stjórn sjóðsins taki af vafa um túlkanir sem eru mjög misjafnar eftir svæðum, þá næðist þessi árangur á þess að lögunum þyrfti að breyta. Ég hef tekið fullt mark á því að það væri rétt niðurstaða.