Atvinnuleysistryggingar

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 15:36:56 (2749)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekkert af þeim lýsingar- og atviksorðum sem hv. þm. notaði komu fram í mínu máli. Ég talaði ekki um að kasta út um gluggann, ég talaði ekki um misnotkun á almannafé eða neitt slíkt. Það eina sem ég sagði var að miðað við það umfang sem nú er í greiðslu atvinnuleysisbóta, það tók ég fram fyrr í minni ræðu, þar sem verið er að greiða úr sjóðnum yfir 2 milljarða kr., þá er það álit þeirra sem skoðað hafa framkvæmdina að með því að samræma reglurnar um þessa framkvæmd og með því að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs taki af tvímæli svo sem það hvort heimilt sé að neita boði um atvinnu þrisvar sinnum áður en viðkomandi fellur út af skrá, það er eitt dæmi af mörgum, með því að samræma slíkar reglur, þá sé hægt að spara miðað við núverandi umfang útgjaldanna allt að 100 millj. kr. án þess að breyta lögum. En atviksorðin og lýsingarorðin sem hv. þm. notaði eru hans en ekki mín.