Atvinnuleysistryggingar

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 15:38:02 (2750)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þau orð, sem hæstv. ráðherra vitnaði til úr máli mínu ,,að kasta`` og ,,misnotkun``, eru hvorki lýsingarorð né atviksorð heldur sagnorð og nafnorð eins og hæstv. ráðherra getur örugglega rifjað upp í höfðinu á sér, sem hann hefur vonandi lært í skólanum á Ísafirði. ( ÓÞÞ: Er þetta ekki komið út fyrir efnið, forseti?) Nei, greinilega ekki vegna þess að hæstv. ráðherra hóf hér ( ÓÞÞ: Er íslenskukennsla á dagskrá?) orðflokkagreiningu sem var óhjákvæmilegt að leiðrétta og hann féll á henni, alveg kolféll.
    Það er hins vegar ljóst að hér er ekki aðeins ætlunin að breyta almennum úthlutunaraðferðum og vinnubrögðum á kontórum. Það er ekki meiningin. Nei. Það á að sauma að reglunum sem snúa að hinum atvinnulausu. Það er ætlunin hjá hæstv. ríkisstjórn og það hefði verið skynsamlegra og heiðarlegra og drengilegra af hæstv. ráðherra að koma fram með það í umræðunni hér fyrr í dag í stað þess að kasta því fram í andsvari þegar ég t.d. hef engin tök á því samkvæmt þingsköpum að svara fyrir mig, en ég mun leita eftir því hjá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hvort hún hefur verið að slugsa með peninga upp á 100 millj. kr. á ári.