Stjórnarskipunarlög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 16:30:25 (2754)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Í máli hv. síðasta ræðumanns kom fram staðfesting á því sem við höfum margir haldið fram í umræðunum um þetta mál áður, að frv. sem hér er um að ræða felur í raun í sér framsal á íslensku valdi sem á ekkert skylt við það sem um er talað í EES-málinu. Ég vil einnig láta þess getið að í nefndarstörfunum kom fram að málið er ákaflega illa undirbúið og nefndarstörfin leiddu í ljós að hv. flm. höfðu alls ekki gert sér grein fyrir því í hverju frv. þeirra fólst. Þess vegna er rökrétt að vilja skoða þetta mál betur því það lýtur að málefnum sem kunna að koma á dagskrá hér þegar árin líða um stöðu Íslands í alþjóðlegu samstarfi og þess vegna er sú niðurstaða meiri hluta stjórnarskrárnefndarinnar rökrétt að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar með það fyrir augum að stjórnarskrárnefnd sem er starfandi skoði það betur og hugi að því hvort í þessu frv. séu hugmyndir sem sé ráðlegt að taka til greina þegar stjórnarskráin er endurskoðuð. Mér finnst fráleitt, eins og síðasti ræðumaður sagði, að telja að með því að vísa málinu til stjórnarskrárnefndar sé verið að setja það í salt eða taka það af lífi. Mér finnst það fráleitar röksemdir í þessu máli. Ég veit ekki betur en sumir af hv. flm. málsins sitji í stjórnarskrárnefnd og þeir hljóta þá a.m.k. að reyna að stuðla að því að hún taki málið til skoðunar og meðferðar. Nái þessi vilji meiri hluta stjórnarskrárnefndarinnar fram er augljóst að vilji þingsins stendur til þess að þetta mál verði skoðað betur. Eins og ég segi leiddi öll meðferð málsins í þinginu og nefndarstörfin í ljós að full ástæða er til að skoða það betur ekki síst fyrir flutningsmennina sjálfa.