Stjórnarskipunarlög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 16:32:52 (2755)

     Frsm. minni hluta stjórnarskrárnefndar (Páll Pétursson) (andsvar) :
    Frú forseti. Málið er það að meiri hluti Alþingis, meiri hluti stjórnarskrárnefndar a.m.k., stjórnarmeirihlutinn, leggur til að framselt verði vald með stórkostlegum hætti með samþykki EES-samningsins og vill ekki aðlaga stjórnarskrána að þeim möguleika heldur ætlar að beita einföldum meiri hluta á Alþingi til að knýja þetta mál fram.
    Hvað varðar það að frv. sé illa undirbúið þá eru það ekki rökin fyrir þeim breytingum sem við leggjum til að gerðar verði á frumvarpsgreininni. Við tókum tillit til ábendinga sem m.a. komu fram í máli stuðningsmanna stjórnarliðsins í fyrri umræðu. Síðan tókum við líka mark af því sem þeir sneru út úr þessu frv., sem gert var með næsta ómerkilegum hætti, og viljum koma í veg fyrir að þeir misskilji textann og geti snúið út úr honum.
    Hvað varðar ummæli hv. 3. þm. Reykv. áðan um stjórnarskrárnefndina, þ.e. nefnd hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, vil ég spyrja hv. þm. hvort hann hafi trú á því að íslensku stjórnarskránni verði breytt á næstunni samkvæmt tillögum þeirrar nefndar. Ég lít svo á að það sé mikil trú að búast við því.