Stjórnarskipunarlög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 16:37:08 (2758)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við 1. umr. um 29. mál þessa þings sem hér er til umræðu kom fram sú ábending við orðalagið ,,hvers konar fullveldisréttur í íslenskri lögsögu`` að með gagnályktun mætti komast að þeirri niðurstöðu að ef aukinn meiri hluti þingsins samþykkti samninga sem hefðu í sér fólgið hvers konar fullveldisafsal þá gæti slíkt mál náð fram að ganga. Í þeirri brtt. sem hér hefur verið borin fram er reyndar gerð tillaga um að orðin ,,á hvers konar fullveldisrétti í íslenskri lögsögu`` breytist á þann hátt að orðið ,,hvers konar`` falli niður. Það er jafnframt tekið fram í nál. að þetta breyti ekki á nokkurn hátt merkingu setningarinnar og segir hér: ,,Að mati minni hlutans breyta þessi orð engu um efni greinarinnar og því óhætt að fella þau brott.``
    Þá vil ég spyrja hv. flm. þessarar brtt.: Ef þessi orð brott fallin breyta engu um efni tillögunnar er þá enn hægt að gagnálykta sem svo að ef aukinn meiri hluti þingsins samþykkir slíkan samning þá megi afsal hvaða fullveldisrétti í íslenskri lögsögu sem er? Það kom fram í nefndarstörfum að þetta orðalag: ,,á hvers konar fullveldisrétti`` þýði hvaða fullveldisréttur sem er.