Stjórnarskipunarlög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 16:39:31 (2760)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom í ljós í ræðu hv. þm. að hann hafði tekið mark á þeim ábendingum sem komu fram við 1. umr. um málið en þar komu einmitt þessar gagnályktanir fram og það er augljóst af þessari brtt. að flm. frv. hafa talið sér skylt að reyna að breyta þessu. En ég verð að viðurkenna að ég sé ekki hver tilgangurinn er með breytingunni. Ef það er skoðun flm., eins og kemur fram í nál. þeirra, að afsal fullveldis er ekki heimilt í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og að þeirra mati verður það ekki heimilt með þeirri breytingu sem hér er gerð tillaga um og er heldur alls ekki æskilegt að koma því inn í stjórnarskrána, hvers vegna er þessu ákvæði þá haldið inni?