Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 17:56:28 (2768)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil endurtaka þá skoðun mína að frv. sem hér er til umræðu er óþarft vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég vil einnig láta þá skoðun koma í ljós að mér finnst mjög ósanngjarnt að vitna til orða dr. Gunnars G. Schrams sem hv. síðasti ræðumaður vissi ekki einu sinni hvenær voru flutt í útvarpi eða sjónvarpi, en taldi þó að það hefði verið einhvern tímann í ársbyrjun 1991 þegar þau mál stóðu allt öðruvísi en þegar lyktir málsins lágu fyrir. Ekki síst t.d. varðandi spurninguna um forúrskurði og aðra slíka þætti sem breyttust síðan eftir að málið var rætt nánar og kannað í samningaviðræðum.
    Ég vil einnig minna á það 5. mars 1991 lýsti ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar því yfir að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið eins og hann stóð þá bryti ekki í bága við stjórnarskrána.
    Það er einnig rangt hjá hv. þm. að það séu mjög margir lögfræðingar sem telji að það mundi brjóta í bága við íslensku stjórnarskrána að lögfesta Mannréttindasáttmála Evrópu. Það er náttúrlega til marks um ónákvæmi ræðumannsins að það var eiginlega ógjörningur að átta sig á því hvort ræðumaður var að tala um Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins eða Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Ég tel þó að ræðumaður hafi átt við Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins og það er alrangt að fullyrða að mjög margir lögfræðingar telji að lögfesting hans mundi brjóta í bága við stjórnarskrána. Hið gagnstæða er rétt. Þeir eru sárafáir ef nokkrir sem telja að það mundi brjóta í bága við stjórnarskrána.
    Varðandi það að Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður hafi lýst því yfir að hann teldi samninginn um EES brjóta í bága við stjórnarskrána þá er það einnig rangt. Hann hefur aldrei lýst því yfir. Hann hefur sagt að það kynni að vera vafi í málinu en hann hefur ekki lýst því yfir að hann telji að samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrána.
    Þarna hef ég talið upp fjögur atriði í ræðu hv. síðasta þingmanns sem eru beinlínis röng eða villandi, en ég fer ekki út í að ræða við hana um önnur lögfræðileg atriði eða skoðanir norrænna stjórnskipunarsérfræðinga á stjórnarskrám þeirra landa.