Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 17:58:53 (2769)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Fyrst varðandi viðtal við Gunnar G. Schram, þá var það birt 8. jan. 1991 en það var ekki tekið upp þann dag vegna þess að þetta voru sex þættir um EES á sínum tíma, Ísland og Evrópa hétu þeir. Ég veit að fyrstu þættirnir voru um miðjan nóvember og þess vegna vissi ég ekki hvort viðtal við Gunnar G. Schram var tekið í nóvember eða akkúrat 8. jan. Mér finnst það frekar ótrúlegt þar sem þetta voru þættir, en þetta viðtal birtist í þætti 8. jan. 1991. Að vísu var viðtal við Gunnar G. Schram í fleiri þáttum en ég vitnaði ekki til þeirra.
    Það hefur þá verið ónákvæmi hjá mér ef ég hef sagt að Ragnar Aðalsteinsson hefði talið að þetta bryti í bága við stjórnarskrána og biðst þá afsökunar á því. Ég vitnaði hins vegar í það sem hann sagði í Tímanum og hélt að ég hefði eingöngu gert það. Hann hefur sagt að það væri mjög mikill vafi að það stæðist stjórnarskrána. Það hefur hann sagt. Hann segir í viðtalinu í Tímanum þann 9. júlí 1992 um óvissu í mati sérfræðinganna, með leyfi forseta: ,,Þeirra niðurstaða er sú að um íþyngjandi valdaframsal sé að ræða en segja síðan eftir að hafa beitt huglægu mati að þetta framsal sé ekki svo verulegt eða íþyngjandi í svo ríkum mæli að það sé brot á stjórnarskránni.`` --- Síðar segir hann: ,,Þannig að niðurstaða þeirra er í raun ekki byggð á mjög traustum forsendum og í meginatriðum er hún byggð á huglægu mati. Þeir gefa sér ákveðnar forsendur sem þeir eru óvissir um sjálfir.``
    Síðan segir hann að lokum það sem ég vitnaði síðan til: ,,Í heildina tekið beiti ég meiri varkárni í mínum aðferðum sem lögmaður. Ég hef ekki sama léttleika í þessu máli og þeir.`` --- Þetta var það sem ég vitnaði fyrst og fremst til.
    Því miður, virðulegi forseti, hef ég ekki tíma til að svara fleiri atriðum en ég hef kannski tækifæri til þess síðar í umræðunni.