Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 18:04:15 (2772)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að þingmaðurinn áréttaði að hann teldi að það væri hægt að samþykkja EES-samninginn með auknum meiri hluta Alþingis ef frv. yrði að lögum. En samt sem áður kemur það fram í málflutningi hans sjálfs og þeirra sem standa að nál. minni hluta stjórnarskrárnefndar að það sé fólgið stjórnarskrárbrot í EES-samninginum. Í nál. kemur fram að stjórnarskránni sé aðeins hægt að breyta með þeim hætti sem kveður á um í 79. gr. Þá nægir að sjálfsögðu ekki þetta frv. eins og það er heldur þyrfti að ráðast í frekari stjórnarskrárbreytingu. Mér finnst þetta þess vegna ekki ganga alveg upp hjá þingmanninum.
    Ég vil einnig endurtaka spurningu mína. Ég spurði hvort líta mætti á þetta frv., ef að lögum yrði, sem forsendu fyrir því að við mættum lögfesta milliríkjasamninga um úrlausnir og ákvarðanir erlendra dómstóla eða yfirvalda sem aðfararheimild fá hér á landi.