Stjórnarskipunarlög

66. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 18:36:34 (2777)

     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er það mjög mikil rangtúlkun á mínu máli að ég hafi orðað þetta þannig að með þessu frv. veittist þingmönnum heimild til þess með 3 / 4 hlutum atkvæða að brjóta stjórnarskrána. Hann getur lesið það sem ég sagði á eftir þegar það verður komið á prent, en ég sagði það aldrei.
    Ég sagði hins vegar að ef ekki þarf að breyta einstökum greinum stjórnarskrárinnar í kjölfar alþjóðasamnings sem samt sem áður fjallar um framsal valds þá mundu þrír fjórðu hlutar þingmanna duga til þess að slíkur samningur yrði gerður en án ákvæðisins hefði að sjálfsögðu verið um brot á stjórnarskránni að ræða. Þarna er verið að opna leið til þess að geta gert slíka samninga sem hafa í sér fólgið framsal á valdi með 3 / 4 hlutum atkvæða. Þá dugar að sjálfsögðu slík samþykkt á Alþingi svo fremi að ekki þurfi að breyta einhverjum öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar sérstaklega.
    Þetta minnir mig á það þegar þingmenn hafa talað um að þannig megi ekki setja lög sem brjóti lög. Stundum heyrir maður þetta á Alþingi. Auðvitað er það hinn mesti misskilningur. Það er ekkert hægt að brjóta lög með lögum. Það er verið að breyta lögum með lögum. Þarna er verið að opna fyrir það að túlka stjórnarskrána á ákveðinn veg án þess að gera formlega stjórnarskrárbreytingu. Það er sú stjórnarskrárbreyting sem í þessu frv. felst.
    Að tala síðan um framsal valds til Svisslendinga er ekkert annað en útúrsnúningur. Ég var að stinga því að hv. meiri hluta Alþingis og ríkisstjórninni hvort ekki væru skynsamlegri vinnubrögð að doka við og sjá hver útkoman verður í Sviss þannig að við séum ekki að eyða tímanum til ónýtis.